Frumvarp um kjaramál fiskimanna

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 10:11:42 (7870)

2001-05-16 10:11:42# 126. lþ. 124.91 fundur 552#B frumvarp um kjaramál fiskimanna# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[10:11]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar það frv. sem við höfum verið að takast á við hér undanfarna daga var lagt fram og fyrir því mælt kom fram að menn töldu sig eða ríkisstjórnin hafa vörn í því að hér væri verið að leysa úr deilu og að lausnin yrði þá að vera sú að flotinn kæmist aftur á sjó, sá væri tilgangur aðgerða ríkisstjórnarinnar, að koma flotanum aftur út á sjó.

Þegar síðan Sjómannasambandið aflýsir verkfallinu í gær þá endurtekur sjútvrh. efnislega það sem hann hafði sagt, aðspurður deginum áður, að ef aðilar aflýstu verkfalli væri tilgangi frv. í rauninni náð vegna þess að þá gæti flotinn farið aftur út á sjó og það væri megintilgangurinn.

Herra forseti. Núna virðist það ekki vera svo lengur. Það virðist ekki ganga einfaldlega vegna þess að hafi menn haldið að sjómenn væru í verkfalli sem þeir síðan voru tilbúnir að aflýsa svo flotinn gæti farið út á sjó þá er það einfaldlega þannig að LÍÚ viðheldur sínu verkbanni og kúgar þannig hæstv. ríkisstjórn til þess að gera það sem þeim hentar.

Og hvað er það þá sem hentar, herra forseti? Jú, það hentar að taka gjörvalla sjómannastéttina, gjörvalla fiskimannastéttina og setja hana undir þau ákvæði sem 163 vélstjórar samþykktu að gætu verið boðleg varðandi mönnunarmálin og varðandi hið nýja viðmið til hlutaskipta varðandi uppgjör til sjómanna.

Herra forseti. Hér er mál af þeirri stærðargráðu að það verður ekki afgreitt í einni hendingu. Hér er stórmál fyrir Alþingi Íslendinga að fást við. Hér verða menn að muna eftir því að jafnræði verður að gilda á milli aðila.