Seðlabanki Íslands

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 12:15:57 (7896)

2001-05-16 12:15:57# 126. lþ. 124.13 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv. 36/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 126. lþ.

[12:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að allbærileg sátt er um frv. sem við ræðum um. Þó vilja ýmsir umsagnaraðilar og ýmsir þingmenn ganga lengra en frv. kveður á um í þá átt að styrkja betur sjálfstæði Seðlabankans. Við teljum m.a. að leið til þess sé að hafa bara einn aðalbankastjóra og að koma á fót svokallaðri peningastefnunefnd sem taki ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.

Undir þetta hafa tekið umsagnaraðilar eins og Þjóðhagsstofnun, ASÍ og Lögmannafélagið, svo dæmi sé tekið. Við leggjum til þær breytingar á frv. að það verði einn bankastjóri og komið verði á fót þessari peningastefnunefnd í þeim breytingartillögum sem við í Samfylkingunni flytjum. Við leggjum til að þeir sem eiga sæti í þessari peningastefnunefnd séu bankastjóri og varabankastjórar og þrír af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu í peningamálum. Ég nefni þetta því hæstv. ráðherra fann þessu til foráttu að þarna sætu hálaunamenn sem gerðu þá ekki annað, sem væru þá, ef ég skil orð hans rétt, utanaðkomandi aðilar. En hér er lagt til að aðilar innan bankans skipi þessa peningastefnunefnd. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki meira í samræmi við þær áherslur sem lagðar eru í frv. um fagleg vinnubrögð að þessi leið verði farin, sem fordæmi eru fyrir í öðrum löndum, Englandi, Nýja-Sjálandi og, ég held, Noregi einnig.

Síðan finnst mér mjög sérkennilegt í þessu frv. að ekki eru gerðar kröfur um hæfnisskilyrði fyrir þá sem veljast í stöðu bankastjóra. Mér finnst mjög sérkennilegt að ganga frá málinu með þeim hætti og spyr hæstv. ráðherra hvort hann hefði ekki talið eðlilegra að slík skilyrði væru fyrir hendi í þessi störf.