Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 15:48:17 (7915)

2001-05-16 15:48:17# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. Halldór Blöndal hefur hugleitt að skipta um starf og víkja af stóli forseta og taka að sér að vera sérstakur siðameistari á Alþingi. Hv. þm. talar sem slíkur nú. Það er sérkennileg viðkvæmni allt í einu hjá hv. þm., þaulreyndum og með langa þingsetu að baki, að telja það gróft orðalag þó maður noti alkunn máltæki af þessu tagi. Ég held að menn skilji alveg við hvað er átt. Það er hægt að fletta þessu upp í orðabókum. Þetta vísar ósköp einfaldlega til þess að menn hafa klúðrað hlutunum og séu ekki vel ferðafærir þegar svo er ástatt orðið um þá eins og ég var að lýsa hér áðan. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er ekki sjófær í þessu máli. Þetta er allt saman hriplekur málatilbúnaður þannig að það má skemmta sér við það út af fyrir sig lengi ef menn vilja að finna viðeigandi orðatiltæki um það. Ég er til dæmis viss um að hv. þm. Sverrir Hermannsson gæti skemmt okkur hér eins og eina stund með algerlega viðeigandi lýsingum á því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið hér að málum, hvernig hæstv. sjútvrh. er leikinn eftir þetta o.s.frv.

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal, virðulegur forseti vor, ætti frekar að jafna sig eftir þessa lotu og hugsa sinn gang. Hann á ærinn starfa fyrir höndum ef hann ætlar að vinna aftur traust þingmanna, a.m.k. í stjórnarandstöðunni eins og hann hefur staðið hér að málum varðandi fundarstjórn og fleira, og bætir ekki úr með því að blanda sér í umræðu með þessum hætti. Ég tek ekki við neinum leiðbeiningum eða kennslu frá hv. þm. Ég tel mig ekki þurfa á því að halda, auk þess sem hann er ekki sá sem ég mundi fyrst snúa mér til ef ég þyrfti á leiðbeiningum að halda í þessum efnum.