Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 16:28:28 (7917)

2001-05-16 16:28:28# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur áhyggjur af þessari lagasetningu og blandar inn í umræðuna málum sem ég hef ekki talið beinlínis vera hluta af henni, eins og fiskveiðistjórnarkerfið sjálft og aðgangurinn að auðlindinni. Auðvitað er það deilumál og menn halda eflaust áfram að deila um það meðan það er við lýði.

Það er samt öllum ljóst að lagasetning á sjómenn er algjört neyðarbrauð og enginn vill í raun fara út í slíka aðgerð ótilneyddur og allra síst þeir sem hafa þekkt þetta umhverfi og vita hversu mikilvægt er fyrir sjómenn að hafa samningsrétt sinn í lagi. Verkfall er búið að standa hjá sjómönnum í sex vikur og það er óumdeilt að mikil vá er fyrir dyrum eftir þetta langa verkfall. Gjaldeyrisþurrð er að verða í þjóðfélaginu og athafnalíf þjóðarinnar í mikilli hættu. Þetta hefur reyndar verið upplýst og ég hygg að sjómenn, sem ég hef ekki kynnst öðruvísi en sem mjög ábyrgðarfullum mönnum, geri sér alveg fulla grein fyrir afleiðingum gerða sinna, enda vinna þeir í slíku umhverfi að ekki hægt er að taka mikla áhættu umfram það sem allra nauðsynlegast er. Þess vegna veltir maður fyrir sér lengd á slíku verkfalli og hvað er hægt að gera ef ekki nást samningar. Þess vegna ætlaði ég að spyrja hv. þm.: Hvað hefði hann lagt til til þess að leysa þessa deilu?