Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 17:17:59 (7923)

2001-05-16 17:17:59# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. minni hluta GAK
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Þegar dregur að lokum 3. umr. um kjaramál sjómanna, frv. um gerðardóm og lög á kjör sjómanna, þykir mér við hæfi enn á ný að vekja athygli á því sem ég hef reyndar áður minnst á við þessa umræðu en tel að ekki sé of oft vakin athygli á, þ.e. að verið er að setja lög á launþega. Það er verið að taka af þeim lýðræðislegan rétt þeirra til að semja um kaup sitt og kjör. Það er verið að setja lög á menn sem buðu í janúar sl. atvinnurekendum sínum, hinum sanngjörnu og samstarfsfúsu samningamönnum LÍÚ, sátt, buðu upp á sátt um að á þessu landi yrðu engin verkföll á þessu ári, buðu upp á sátt um að lenda málinu með ákveðnum hætti í þremur atriðum, launabreytingum, slysatryggingarmálum, lífeyrismálum, allt annað yrði sett í samstarfshóp til þess að leysa málin.

Atvinnurekendur, hinir sáttfúsu, samstarfsfúsu og lipru samningamenn LÍÚ, fundu auðvitað hjá sér hvöt til að hafna slíku sáttaboði, enda var það ævinlega markmið þeirra að ná málinu í þann farveg að hér skyldu sett lög um að það skyldi tekið fyrir að breyta hlutaskiptum manna. Á þessu held ég að veiti ekki af að vekja athygli á við lok þessarar umræðu, þ.e. að það voru sjómannasamtökin öll sameiginlega sem buðu upp á þessa lendingu. Þau verða ekki sökuð um það, eftir að hafa verið með lausa samninga í ár og boðið síðan upp á sáttalendingu, að þau hafi beitt verkfallsvopninu ótæpilega. Þau buðu fram sátt. Henni var hafnað. Síðan standa þessi sömu samtök, eins og sjómannasambandið sem hefur aflýst sínu verkfalli, uppi með það að verið er að setja á það lög vegna þess að samningsaðilinn sem hafnaði sáttinni viðheldur verkbanni til að knýja fram lagasetningu á alla starfandi fiskimenn á Íslandi, aðra en vélstjóra sem eru búnir að marka sér smápart af kökunni sérstaklega fyrir sig. Þetta er hinn kaldi raunveruleiki málsins.

Þessi endalausi afgreiðslumáti hér á pöntunum á lögum frá pöntunarfélaginu LÍÚ er algjörlega óþolandi, herra forseti.