Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 21:43:01 (7950)

2001-05-16 21:43:01# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[21:43]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég vil byrja á að þakka bæði fulltrúum Sjálfstfl. og fulltrúum Framsóknar fyrir þá miklu athygli sem þeir veita okkur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Það hlýtur að benda til þess að við séum verðugir andstæðingar og viljum hafa sýn sem er öðruvísi en þeirra. Er það ekki?

Sjálfumglaðir stjórnarsinnar hér hafa sjálfsagt efni á því að skensa aðra og halda og segja að það sem þeir eru að gera sé best. En er það svo? Eru ekki tvær hliðar á öllum málum? Er það svo að hlutirnir séu með þeirri glansmynd sem dregin er upp hér í orðræðum bæði framsóknarmanna og sjálfstæðismanna?

Góðir landsmenn. Við skulum átta okkur á því að sú velgengni sem stjórnarherrarnir guma af er keypt dýru verði. Hún er keypt því verði að hér er verið að gjörbreyta á örfáum árum samfélaginu Íslandi, sem í áratugi hefur byggst á jafnrétti og félagshyggju, en hér sitja fulltrúar markaðsvæðingarflokkanna og eru hreyknir af því.

Til hvers leiðir sú stefna sem þessir menn eru að fara? Það vita menn en þjóðin er fyrst að finna hitann af stefnunni núna með fullum þunga eftir sex ár. Það er einkavæðingarstefnan. Hvernig er hrunadansinn, hvernig er góðærið fjármagnað? Er það ekki að hluta til fjármagnað með sölu á silfri þjóðarinnar? Og það á enn að selja. Er það ekki það sem er í gangi? Framsóknarmenn í samvinnu, taglhnýtingar sjálfstæðismanna, vinna hörðum höndum að grundvallarbreytingum á þjóðfélaginu Íslandi sem við höfum verið svo stolt af hingað til, rík þjóð, vel menntuð, og það er grunnurinn sem byggt er á. Það er sá grunnur sem farið er í á breytingaskeiðinu. Við skulum átta okkur á því að tíu ára ferill er ekki langur ferill í pólitík. Og þegar þetta skeið verður gert upp eftir tíu ár af sagnfræðingum, þá er ekki eins víst að þessi mynd verði svo glæst sem menn lýsa henni núna.

Á öllum sviðum samfélagsins er verið að breyta um takt í rólegheitum. Sala ríkisfyrirtækja og smám saman, hægt og bítandi, er verið að bora sig inn í grunnþjónustuna sem allir eiga að eiga jafnan rétt að og hefur verið þjóðarsátt um hingað til, sjúkrahúsin, öldrunarþjónustan, umönnunin, allt er falt, allt er falt fyrir nýja tíma. Og það er þetta sem meginágreiningurinn snýst um.

Góðir landsmenn. Ég frábið mér að þeir sem stjórna ferðinni núna geri lítið úr okkur hinum sem höfum aðra sýn og viljum gera hlutina öðruvísi. Ég er stoltur af því fyrir hönd míns fólks í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að við stöndum vörð um hin íslensku gildi sem við höfum verið stolt af í áratugi, að byggja upp samfélag sem byggir á félagshyggju og jafnrétti. Það er ekki markaðssamfélag. Grunnstoðir samfélagsins eiga að vera á jafnréttisgrundvelli fyrir alla Íslendinga.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Góðir landsmenn, góðar stundir og gleðilegt sumar.