Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 15:14:22 (7998)

2001-05-17 15:14:22# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að vekja athygli hv. þm. á því að við sitjum á löggjafarsamkomu og erum að fjalla um lög. Við erum ekki sölusjoppa. Það er munur á löggjafarsamkomu og framkvæmdarvaldi. Framkvæmdarvaldið annast söluna á grundvelli laga. Ég bið því hv. þm. um að draga ekki umræðuna inn á það að ætla þingmönnum að standa hér og hengja einhvern verðmiða á. (Gripið fram í.) Til þess valdir sérfræðingar munu annast það og við treystum þeim fullkomlega.

Af því að hann spyr um framtíðarsýn þá ítreka ég hana. Framtíðarsýn okkar er sú að fjarskiptakerfið verði áfram þróað þannig að það nái til sem flestra ... (Gripið fram í.) til allra landsmanna á sambærilegu verði. Það er sú framtíðarsýn sem við höfum og við ætlum að nýta það tækifæri sem gefst við söluna á Landssímanum til þess að flýta fyrir þróuninni, en hún hefur verið allt of hæg. (Gripið fram í.) Því hefur verið svarað.