Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 17:49:47 (8009)

2001-05-17 17:49:47# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[17:49]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði í upphafi máls síns, sinnar löngu ræðu, um trúarbrögð, að menn væru haldnir trúarbrögðum einkavæðingar. En ég hlýt að spyrja hv. þm. þess: Hvað með trúarbrögð ríkisvæðingarinnar? Hvað með trú vinstri grænna á að ríkið geti rekið alla hluti sem snúa að atvinnulífinu?

Það er nú einu sinni þannig að það fékkst nokkuð löng reynsla á það t.d. austur í Sovét og menn lærðu nú eitthvað af henni. Sú reynsla sem menn hafa hér á Vesturlöndum af því að ríkið reki fyrirtæki á samkeppnismarkaði hefur ekki verið sérstaklega góð og þess vegna eru menn almennt að hverfa frá því. Það held ég að hljóti að vera nokkuð sterk rök, sú reynsla, fyrir því að breyta þessu fyrirtæki, Landssímanum, sem er á samkeppnismarkaði. Menn hljóta að líta til þeirrar reynslu sem almennt er af ríkisrekstri.

Hv. þm. nefndi einnig að hann hefði áhyggjur af því hvernig samkeppnin er í dreifbýlinu. Ég held að eðlilegast sé að horfa til þeirrar miklu tæknibreytingar sem er að verða og þess að t.d. raforkufyrirtæki stefna á það að veita þjónustu úti á landi. GSM-fyrirtæki veita þjónustu úti á landi og m.a. vegna þess hversu fjarskiptalögin eru ágæt þá er skylt að veita reikisamninga sem samkeppnisfyrirtækin hafa einmitt nýtt sér.