Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 21:22:56 (8042)

2001-05-17 21:22:56# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[21:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur einnig komið fram að þetta viðfangsefni, þessar spurningar hafa ekki verið reifaðar í stjórn þessa starfsmannafélags. Það liggur engin samþykkt þar að baki. Málin hafa ekki verið rædd á þeim vettvangi. Ég var að segja að þetta félag skipuleggur skemmtanir, árshátíðir og hópferðir og ég efast um að grunnnetið sé mjög til umræðu á árshátíðum starfsmanna Landssímans.

Ég er að benda hv. þm. á að Félag íslenskra símamanna sinnir hagsmunamálum starfsmanna og ef raunverulegur vilji er fyrir því af hálfu Alþingis að leita eftir viðhorfum starfsmanna þá snúa menn sér til þess félags. Þetta er náttúrlega sýndarleikur, mikill sýndarleikur. Ég vil taka fram að ég er ekki að gera lítið úr starfsmannafélaginu. (ÞKG: Nú!) Það sinnir einvörðungu öðrum verkefnum. Það er venjan þegar menn tala í nafni starfsmanna að þá byggja þeir á lýðræðislegri samþykkt. Það var ekki í þessu tilviki.