Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:31:36 (8055)

2001-05-17 22:31:36# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:31]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega verk okkar allra að jafna þetta leigulínuverð 100%. Ekkert annað er ásættanlegt.

Það er ekkert sem bannar það, herra forseti, að leigulínuverð sé jafnað. Þegar þetta er kostnaðarmetið kemur út ákveðið hámarksverð. Þegar búið er að afskrifa þessar lagnir að öllum hluta eða einhverjum hluta er ekkert sem bannar að farin sé jöfnunarleið, líkt og er e.t.v. verið að boða og því ætla ég að fagna.

Herra forseti. Það sem er grundvallaratriði í sambandi við leigulínuverð, það sem ég hef farið í gegnum í dag og tekið dæmi af lengstu leiðum í Reykjavík og svo aftur borið saman kannski Neskaupstað eða Ísafjörð, er sá ofboðslegi munur sem skekkir samkeppnishæfni þessara svæða. Það er samkeppnishæfni svæða sem skiptir og mun skipta höfuðmáli í framtíðinni í sambandi við aðstöðumun landsbyggðarfyrirtækja og landsbyggðafólks gagnvart höfuðborgarsvæði. Í þessari tæknibyltingu skiptir það mjög miklu máli.