Málefni smábáta og starfsáætlun þingsins

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 10:11:29 (8083)

2001-05-18 10:11:29# 126. lþ. 128.91 fundur 563#B málefni smábáta og starfsáætlun þingsins# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[10:11]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Samkvæmt starfsáætlun átti störfum þingsins að ljúka í dag en enn fjölgar málum á dagskrá. Ég vil því spyrja hæstv. forseta þingsins hvort ráðgert sé að þingi ljúki á morgun eða hvort hann hafi hugmyndir um einhverja aðra dagsetningu og hvenær þá í næstu viku ef slíkt er í huga hans.

Síðan vil ég jafnframt spyrja hæstv. forseta hvort hann hyggist leita einhvers samkomulags um það hvenær störfum þingsins muni ljúka og hvaða framvinda verði á þingmálum.

Ég vil svo lýsa áhyggjum mínum af því að hér skuli ekki enn þá vera komið inn frv. um frestun á kvótasetningu á veiðar smábáta. Í raun og veru er afar nauðsynlegt að tekið verði á því, því að gangi lagasetningin eftir óbreytt mun það verða reiðarslag fyrir landsbyggðina.