Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:10:33 (8093)

2001-05-18 11:10:33# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi uppsagnir á starfsfólki og að þær hafi verið miklar við hlutafélagavæðinguna eða hafi verið meiri en núna, þá hefur starfsmannafjöldinn í heild, ef horft er til hans, ekki minnkað. En þegar horft er til hefðbundinna bankastarfa, þá hefur veruleg fækkun orðið og það var það sem ég var að lýsa sem helst hefur bitnað á fólki við hefðbundin bankastörf. Aukning hefur orðið í verðbréfadeildum bankanna þannig að í heildina hefur starfsfólki ekki fækkað ef hv. þm. er að vitna til þess, en starfsfólki hefur fækkað verulega á umliðnum árum svo hundruðum skiptir. Ég er ekki með töluna fyrir framan mig en það hefur sérstaklega bitnað á konum.

Það sem við erum að fara með þessum brtt., herra forseti, er að meðan ríkisstjórnin er meirihlutaeigandi í bönkunum, þá nýti hún það sem hún getur til að hafa áhrif á það að starfsmannavelta verði látin ráða ferðinni eins og starfsmenn bankanna og forráðamenn þeirra hafa lagt áherslu á. Við erum að leggja áherslu á að ríkisstjórnin fari sömu leið og gert var á hinum Norðurlöndunum við sambærilegar aðstæður, þ.e. að með lagabreytingu verði opnað fyrir það að starfsmenn eigi fulltrúa í stjórnum bankanna. Við teljum að það sé til hagsbóta bæði fyrir starfsmennina og fyrir bankakerfið í heild að starfsreynsla bankanna sé nýtt og við leggjum áherslu á það að ráðherra meðan hann er meirihlutaeigandi beiti sér fyrir því að samið verði við starfsfólk um möguleika á starfsþjálfun og endurmenntun til að auðvelda aðlögun að nýrri tækniþróun og breytingum í bankakerfinu. Það er í samræmi við það sem hefur verið að gerast. Það er að starfsfólki verði gefið slíkt svigrúm. Út á það ganga tillögur okkar, herra forseti.