Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:14:33 (8095)

2001-05-18 11:14:33# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Miðað við það óðagot sem er á ríkisstjórninni og þá hraðferð sem hún er í við að selja ríkiseigur, þá treystum við því engan veginn að hún taki tillit til þeirra umsagna sem fram kæmu hjá Seðlabanka eða Þjóðhagsstofnun jafnvel þó að hún mundi leita til þeirra. Ef fram kæmi það mat Þjóðhagsstofnunar á Seðlabankanum að ekki væri heppilegt við þær aðstæður sem nú eru að selja lítinn eða eftir atvikum stóran hluta í bönkunum, þá er engin trygging fyrir því að ríkisstjórnin eða einkavæðingarnend fari eftir því áliti. Þess vegna teljum við af því að við treystum ekki ríkisstjórninni betur en það að ástæða sé til þess að negla það niður í ákvæði til bráðabirgða að leitað sé umsagnar og álits Seðlabankans og staðfestingar á því að aðstæður séu með þeim hætti á fjármálamarkaði að það sé hyggilegt að ráðast í svo mikla sölu. Ég held að ríkisstjórnin sé á það mikilli hraðferð að koma þessum verðmætu ríkiseigum í hendur á vildarvinum að henni haldi engin bönd jafnvel þó að Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki vari hana við í þeim efnum.

Hvað varðar starfsfólkið, þá erum við ekkert fyrir fram að gefa okkur það að þegar bankinn væri kominn úr meirihlutaeign ríkisins að starfsfólk væri ekki haft með í ráðum eða að nýir eigendur bankanna sem hugsanlega kæmu til mundu leita samráðs við starfsfólkið um starfsþjálfun og endurmenntun. Ég treysti núv. viðskrh. betur til þess að reyna að tryggja hag fólksins með þeim aðferðum sem við erum að leggja til heldur en setja það í einhverja óvissu hjá nýjum eigendum í bönkunum. Við teljum að ráðherrann eigi að nýta það svigrúm sem hún hefur núna til þess að breyta lögum og tryggja þátttöku starfsmanna í stjórnum bankanna.