Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 11:52:24 (8097)

2001-05-18 11:52:24# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[11:52]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ítarlega og efnismikla ræðu um þetta mál. Það eru atriði sem ég vildi gjarnan koma inn á og spyrja hann um af því að hv. þm. fjallaði í löngu máli um verðlagningu á þessum eignarhlutum ríkissjóðs hvort sem það er í bönkunum eða í Landssímanum. Ég hafði nefnilega á tilfinningunni þegar ég hlustaði á hv. þm. að hann væri á móti sölu þessara eigna alveg óháð verðinu. Því væri fróðlegt að vita hvort hann væri yfirleitt tilbúinn til að selja þessar stofnanir á einhverju verði eða hvort honum finnst að ef verðið sé of lágt eigi ekki að selja en ef það sé hátt þá sé í lagi að selja? Hv. þm. eyddi löngum tíma af ræðu sinni í að fjalla um þetta mál.

Ég verð að segja fyrir mig að ég tel að skynsamlegast sé að sölunni á hlutum ríkissjóðs í bönkunum eða Landssímanum sé dreift á þokkalegum tíma þannig að þegar upp er staðið geti bæði kaupendur og seljandi verið þokkalega ánægðir. Kaupendur verða vonandi margir en seljandi er að vísu einn þannig að þegar menn líta til baka hvort sem það verður eftir fimm ár eða tíu ár, þá finnist engum sem þarna kemur til með að eiga hlut að máli að hann hafi verið að gera mistök. Ég tel að það eðlilegast og best ef saman geta farið hagsmunir kaupenda og seljanda í þessu máli.