Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:42:33 (8152)

2001-05-18 17:42:33# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra orðaði það svo að ákvæði frv. gætu skapað svigrúm fyrir þá sem standa þannig að vígi að geta samið við bankana. Þetta er nákvæmlega rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég held nefnilega að þetta ákvæði frv. breyti engu fyrir hinn almenna einstakling eða kannski fyrir lítil eða meðalstór fyrirtæki. Þetta er fyrst og fremst sniðið fyrir stærri fjárfesta sem eru í stöðu til þess að semja við bankana.

Ég spurði hæstv. ráðherra um kjörvaxtaflokkana, hvort ráðherrann teldi ekki óeðlilega mikinn mun á lægstu og hæstu vöxtum, þegar lægstu vextir fyrir þá sem bankarnir meta sem trygga lántakendur væru 0,5% en allt upp í 5% hærra fyrir þá sem bankinn metur ekki trygga lántakendur. Þeir sem eru ekki traustir að mati bankans --- að mati bankans, ég undirstrika það --- þurfa að borga 4,5% hærri vexti. Telur ráðherrann ekki eðlilegt að setja eitthvert svigrúm við efri og neðri mörk sem bankarnir verða að fylgja í þessu efni? Mér finnst það óeðlilegt svigrúm sem þarna er á ferðinni.

Varðandi verðtrygginguna er ekki bara verið að viðhalda ákvæðum verðtryggingarinnar heldur er í 15. gr. --- og það var um hana sem ég spurði --- gengið þannig frá málum að Seðlabankanum verður heimilt en ekki skylt að ákveða lágmarkstíma verðtryggingar. Verðtrygging er þannig að hana má setja á innlán í þrjú ár og útlán í fimm að mig minnir og nú hafa bankarnir svigrúm til að fara neðar með verðtrygginguna, verðtryggja til skemmri tíma en verið hefur. Við erum því að stíga skrefið í þá átt að festa okkur frekar í verðtryggingunni en draga okkur út úr henni. Það var það ákvæði sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra um og ég vænti að hún svari ásamt því sem ég spurði um varðandi kjörvaxtaflokkana.