Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 17:48:55 (8155)

2001-05-18 17:48:55# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef tröllatrú á þeirri ríkisstjórn sem situr í landinu og þarf varla að taka það fram og ég tel að hv. þm. sé að stríða mér þegar hún er að láta að því liggja að það séu einhver óskaplega merkileg skilaboð út í þjóðfélagið að við skulum viðhalda verðtryggingu. Verðtryggingin hefur verið það lengi og hefur skapað sér þann sess í þjóðfélagi okkar að ég held að það geti ekki þótt nein tíðindi þó að henni verði viðhaldið eitthvað lengur. En ég kannast alveg við að því hefur verið haldið fram að eftir að hér væri kominn á stöðugleiki væri alveg hægt að velta því fyrir sér að afnema hana. Kannski rennur upp sú stund meðan ég sit í stóli viðskrh. að ég muni leggja fram frv. sem kveður á um að afnema verðtryggingu. En a.m.k. eins og staðan er í dag og eins og staðan var þegar þetta frv. var undirbúið og það lagt fram, þá taldi ég --- og það var niðurstaða ríkisstjórnar --- að ekki væri ástæða til þess að fara út í róttækar breytingar hvað þetta varðar.

Hv. þm. talar mikið um 4,5% muninn eftir mati bankanna. Vissulega er þetta mikill munur, ég get alveg tekið undir það. En ég felli mig við að þetta sé þannig. Ef reynslan verður slæm af þessu eins og það er í frv. í því formi sem það er nú þá er alltaf möguleiki að breyta. Við skulum tala saman um þetta eftir ár.