Vextir og verðtrygging

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 18:27:34 (8172)

2001-05-18 18:27:34# 126. lþ. 128.12 fundur 566. mál: #A vextir og verðtrygging# (heildarlög) frv. 38/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem í andsvar við hv. þm. vegna þess að hann fór svo ágætlega yfir það áðan hverjir lánsmöguleikar fólks væru. Hann fór þá m.a. yfir það hvaða leiðir væru fyrir fólk til lána þegar það væri að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Ekki er tilviljun að nú er hægt að fara á einn stað eins og áður í Húsnæðisstofnun, nú í Íbúðalánasjóð, og fá svo hátt hlutfall að láni þegar um kaup á íbúð eða húsnæði er að ræða. Það er markviss stefna sem unnið var eftir þannig að fólk kæmist út úr þeim vítahring að hlaupa á milli peningastofnana og slá víxla.

Þessi ríkisstjórn hefur ekki staðið vörð um stöðugleikann. Hún hefur hvatt til óráðsíu, eyðslu og fjárfestinga með óábyrgu tali. Ég kem til að bæta í raun og veru við það sem þingmaðurinn var að fjalla um og líka þá um Íbúðalánasjóð. Áður voru húsbréf eingöngu lánuð til þeirra sem voru að koma yfir sig þaki. Ef ég væri að selja 5 millj. kr. íbúð og ætlaði að kaupa 8 millj. kr. íbúð gat ég ekki fengið lán nema sem nam þessum mismun. Fyrir meira en ári var þetta afnumið í þenslunni og hvatningunni til að eyða þannig að fólk sem var að selja 20 millj. kr. eign gat farið í Íbúðalánasjóð, tekið fullt húsbréfalán ef það var að kaupa litla íbúð og eytt hinu eða fjárfest. Það er ekki að undra, herra forseti, að nú skuli íslenskur iðnaður senda tóninn til ríkisstjórnarinnar, vekja athygli á verðbólguskjálfta og að mánaðarleg verðbólga hefur ekki verið hærri síðan 1990.