Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 21:55:11 (8203)

2001-05-18 21:55:11# 126. lþ. 128.16 fundur 687. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (starfsemi utanríkisþjónustu o.fl.) frv. 59/2001, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[21:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er oft þannig með okkur sem teljum okkur vini ríkissjóðs, að við þurfum stundum að hugsa um ýmsar litlar músarholur sem hægt er að ná einhverju út úr. Þetta er kannski eitt af því. Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. að það skiptir máli hvernig þjónustan er þegar borgað er fyrir vegabréf, ökuskírteini og slíka hluti. Þar mætti alveg bæta þjónustuna. Ég þekki þetta ágætlega sjálfur þar sem ég var að endurnýja vegabréf fyrir þrjá fjölskyldumeðlimi á síðustu dögum. Það sem kom mér eiginlega mest á óvart var að þegar ég var búinn að greiða fyrir fram fyrir vegabréf konu minnar þá kom fram sú krafa frá gjaldkeranum að ég þyrfti að sýna kvittuna þegar ég næði í vegabréfið fyrir konuna eða hún þyrfti að koma með kvittunina.

Mér er það algerlega hulin ráðgáta hvernig staðið getur á því að allt þetta kerfi sem hefur miklu hlutverki að gegna í eftirliti á Schengen-svæðinu getur ekki haldið utan um það hvort búið væri að borga fyrir vegabréf eða ekki þegar það er sótt, ekki síst ef borgað er fyrir það fyrir fram og gerð vegabréfsins fer ekkert í gang fyrr en búið er að borga. Samt átti að sýna kvittunina til sönnunar fyrir því að búið væri að borga þegar vegabréfið var sótt. Mig langar þess vegna að spyrja hv. þm. hvort honum finnist að svona þjónusta sé ekki einmitt þjónusta sem við ættum að taka okkur til við að einkavæða.