Raforkuver

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 23:25:00 (8219)

2001-05-18 23:25:00# 126. lþ. 128.49 fundur 722. mál: #A raforkuver# (stækkun Nesjavallavirkjunar) frv. 80/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[23:25]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver, með síðari breytingum. Eins og fram kom hjá hv. framsögumanni iðnn. skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara en frv. fjallar um að iðnrh. verði heimilt að veita Orkuveitu Reykjavíkur leyfi til að reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum.

Hitaveita Reykjavíkur fékk 16. júní 1997 heimild til að reisa 60 megavatta virkjun á Nesjavöllum. Það er ánægjuefni að nú er talið mögulegt að fá á Nesjavöllum aukið afl, um 30 megavött, þannig að stöðin verði 90 megavött. Ég vil þó halda því til haga að Orkustofnun telur að á 30 árum geti þurft að endurskoða orkuöflunina á svæðinu. Það þýðir náttúrlega að þetta er ekki auðlind sem endist að eilífu. Við gerum okkur grein fyrir því.

Ég vil líka halda því til haga, sem er kannski ástæðan fyrir fyrirvara mínum við nefndarálitið, að Orkuveita Reykjavíkur hefur samið við Landsvirkjun um að reka virkjunina. Það þýðir í sjálfu sér að orkunni er að öllum líkindum ætlað að fóðra stóriðju og málmbræðslur. Ég hefði fyrir mína parta viljað sjá öðruvísi áherslur, að ódýr orka byðist fyrir borgina og framsækin plön um að útrýma olíunotkun í iðnaði innan borgarmarkanna. Hins vegar er það ekki hið háa Alþingi sem fer með slík mál. Hér eru stór iðnfyrirtæki sem knýja vélar sínar með olíu, það vita allir.

Eftir þeim upplýsingum sem ég hef er þessi grunnur, 60 megavött sem nú eru framleidd á Nesjavöllum af miklum myndarskap, eining sem í sjálfu sér borgar sig ekki. Það þýðir á mannamáli að Reykvíkingar borga niður orkuna til stóriðju. Orkuverið er hins vegar í sjálfu sér hið besta mál og þess vegna skrifa ég undir nefndarálitið. Það er í sjálfu sér ekki okkar að fjalla um hvernig Reykjavíkurborg eða Orkuveitan selur þá orku sem þeir framleiða. Ég vildi aðeins halda þessu til haga.