Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:53:22 (33)

2000-10-04 13:53:22# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eitthvað er sjálfstraust hæstv. forsrh. farið að bila því að eina vonarglætan sem hann gat rétt öldruðum og öryrkjum í ræðu sinni hérna áðan var að innan skamms kynni að vera brostin á vinstri stjórn. Guð láti gott á vita. En í upptalningu sinni á öllu því góða sem hæstv. forsrh. taldi að ríkisstjórnin hefði gert fyrir bótaþega í þessu landi gleymdi hann að geta sérstaks feluskatts upp á 3,5 milljarða sem lagður var á í fyrra, feluskatts sem varð til vegna þess að það gliðnaði á milli persónuafsláttar og launaþróunar. Á herðum hverra lenti sá skattur fyrst og fremst? Á herðum þeirra sem borguðu ekki skatta áður en þurfa að gera það núna, þeirra sem lifa á strípuðum bótunum, fólkinu hérna uppi í galleríinu.

Herra forseti. Það er einfaldlega orðið þannig að ómeðvituð aðskilnaðarstefna er orðin til í þessu samfélagi. Það er fólk sem getur ekki tekið þátt í samfélaginu lengur eins og við hin sem höfum nóg að bíta og brenna. Fólk sem getur ekki sent börn sín til þess að njóta lífsgæða á borð við tónlistarkennslu, íþróttanámskeiða, fólk sem getur ekki notið sömu gæða og við í formi tónleika og leikhúsferða. Herra forseti. Í þessu birtist aðskilnaðarstefnan í samfélagi sem við töldum áður að væri stéttlaust. Þetta er svartur blettur á okkur öllum og Alþingi þarf að taka höndum saman um að leiðrétta þetta.

Við Íslendingar höfum áður getað náð samstöðu meðal þjóðarinnar til þess að gera sérstakt átak í efnum sem við berum fyrir brjósti. Hvenær á að gera sérstakt átak í málefnum aldraðra og öryrkja ef ekki á því tímaskeiði sem hæstv. forsrh. hefur lýst sem mesta góðæri í sögu þjóðarinnar? Það er auðvitað núna, herra forseti. Þess vegna er það tillaga Samfylkingarinnar að komið verði á viðræðum milli fulltrúa ríkisvalds, sveitarfélaga, lífeyrissjóða og samtaka aldraðra og öryrkja um sérstaka afkomutryggingu til að verja hag og kjör þeirra sem verst eiga til að koma í veg fyrir að nokkur þurfi að una fátækt og óvissu um kjör sín.