Kjör aldraðra og öryrkja

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 13:55:28 (34)

2000-10-04 13:55:28# 126. lþ. 3.94 fundur 16#B kjör aldraðra og öryrkja# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Ásta Möller:

Herra forseti. Íslenska lífeyrissjóðakerfið hefur verið að byggjast upp á síðustu áratugum. Innan fárra ára mun það nær alfarið taka við af almannatryggingakerfinu og tryggja öldruðum góð eftirlaun og áhyggjulaust ævikvöld í efnalegum gæðum og öryrkjum þokkalegan lífeyri. Margir eftirlaunaþegar eru þegar farnir að upplifa þennan veruleika.

Þau sjónarmið hafa heyrst meðal eldri borgara að þeir telji sig eiga rétt á því að fá óskertan lífeyri úr almannatryggingum burt séð frá öðrum tekjum sínum. Þeir hafa greitt skatta alla sína tíð og þetta sé réttur þeirra. Í þessu felst að mínu mati ákveðinn misskilningur. Almannatryggingakerfið er nákvæmlega það sem nafnið gefur til kynna, það er tryggingakerfi sem er ætlað að koma til skjalanna þegar heilsubrestur, fátækt eða bernska kemur í veg fyrir að viðkomandi geti framfleytt sér. Greiðslur ellilífeyris hafa að undanskildu tólf ára tímabili, frá 1960--1972, verið tekjutengdar með einum eða öðrum hætti og þannig hefur almannatryggingakerfið verið notað sem tæki til tekjujöfnunar.

Þangað til lífeyriskerfið hefur tekið yfir greiðslur eftirlauna verður hins vegar að grípa til sérstakra ráðstafana vegna þeirra aldraðra sem bera lítið úr býtum. Það þarf að brúa ákveðið bil og það þarf að skapa sátt um þá leið. Stjórnvöld hafa ekki áhuga á að standa í stælum við eldri borgara þessa lands.

Ég er sammála talsmönnum aldraðra og öryrkja að bæta þarf kjör þeirra sem verst eru settir, það þarf að endurskoða tekjutengingu og það þarf að lækka skatta, sérstaklega eignarskatta. Eldri borgarar verðskulda virðingu og virðing verður best sýnd með því að tala hreint út um hlutina. Það er markmið þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að tryggja sérstaklega hag þeirra öryrkja, fatlaðra og aldraðra sem lægstar tekjur hafa. Í því skyni stendur m.a. yfir endurskoðun á almannatryggingakerfinu og sérstaklega er skoðað samspil þess við skattkerfið og lífeyrissjóðakerfið. Niðurstöðu þeirrar vinnu er að vænta innan tíðar og bind ég miklar vonir við að hún leiði til þeirrar sáttar sem þörf er á.