Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:32:16 (48)

2000-10-04 14:32:16# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð inn í þá umræðu sem hér fer fram um afleiðingar skjálftanna á Suðurlandi sem vissulega er ástæða til að taka undir og fagna að ekki skyldu valda manntjóni.

Eins og komið hefur fram hjá forsrh. eru þessi mál öll til umfjöllunar af hálfu ríkisstjórnar og hafa ráðuneytisstjórar haft þar ákveðið hlutverk. Það hefur verið ákveðið af hálfu þriggja ráðuneyta, forsrn., fjmrn. og viðskrn., að fram fari fagleg athugun á afskriftareglunum. Vissulega hafa borist ákveðnar kvartanir til viðskrn. sem varða þessi mál og að hluta til er það þannig að fólk á erfitt með að gera sér grein fyrir rétti sínum og kannski í einhverjum tilfellum að skilja matsgerðirnar.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við nýtum reynslu þessa sumars til að vinna fram á veginn og vinna okkur áfram í þessu máli sem vissulega er að mörgu leyti flókið. Ég get tekið undir það með ýmsum ræðumönnum að ástæða er til þess núna að meta það hvort við eigum að fara í heildarendurskoðun á viðlagatryggingaumhverfinu --- það er mál sem þarf að skoða alveg til hlítar --- eða hvort gerðar yrðu minni háttar breytingar á viðlagatryggingalögunum. En ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir að eitthvað af þeim hnökrum sem hafa komið upp geta verið á grundvelli þess að lagaumhverfið sé ekki nægilega skýrt og ekki nægilega skilvirkt.