Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:36:32 (50)

2000-10-04 14:36:32# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál hér upp og eins hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf í ræðu sinni áðan sem vissulega benda til þess að menn ætli að læra af þeirri reynslu sem þeir hafa áunnið sér eftir þessar hörmungar sem yfir Suðurland gengu. Hins vegar kom það fram eins og ætíð hér á Íslandi að samhugur fólksins í landinu er meiri en nokkru sinni þegar slíkar hamfarir dynja yfir.

En það breytir ekki hinu að þegar áföll eins og þessi koma til þá reynir á þær reglur og þau gildi sem við er miðað þegar verið er að takast á við áföll eins og þessi og ýmsar spurningar hafa vissulega vaknað við þá framkvæmd. Í fyrsta lagi virðist mér sem hlutverk ríkis og sveitarfélaga sé ekki nægilega skilgreint þegar kemur að því að bregðast við tjónum af þessum toga og hæstv. forsrh. nefndi m.a. eitt atriði hvað það varðar þar sem deilur eru nú uppi um það hvernig eignarhald eigi að vera á því bráðabirgðahúsnæði sem verið er að reisa og koma yfir það fólk sem hvað harðast varð úti.

Hæstv. forsrh. orðaði það þannig að það væri óþægilegt fyrir ríkið að sitja uppi með þessi hús en þessari fullyrðingu má allt eins snúa við og segja sem svo að það geti verið mjög óþægilegt fyrir sveitarfélögin að sitja uppi með þetta húsnæði, enda hafa þau gert kröfur um það að ef þau eigi að leysa þetta til sín verði a.m.k. 70--80% afföll.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, hafa margir þingmenn nefnt það að þær afskriftir sem reiknaðar eru hvað varðar það húsnæði sem verður fyrir tjóni, því húsnæði er afskrifað um 1% á ári þannig að 30 ára gamalt húsnæði er búið að afskrifa um 30% en menn eru samt sem áður að borga full iðgjöld eins og brunabótamatið standi alveg óskert sem grundvöllur bóta. Ég held því að í þessu samhengi verði a.m.k. að skoða ákvæði laga um vátryggingasamninga, eins og 37. gr. þeirra laga, og ég held að ef menn muni a.m.k. takast á við þær reglur þá hafi eitthvað gott hlotist af þeim lærdómi sem af þessum náttúruhamförum hefur hlotist.