Ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 14:41:18 (52)

2000-10-04 14:41:18# 126. lþ. 3.95 fundur 17#B ráðstafanir stjórnvalda í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í sumar# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. svörin sem mér fannst að mörgu leyti ágæt. Ég er honum t.d. sammála um að hér er á ferðinni viðkvæmt mál og vandmeðfarið þar sem þurfi að gæta jafnræðis. Auðvitað þarf þó að hyggja sérstaklega að þeim sem urðu fyrir mestu tjóni og tek ég þar undir með öðrum hv. þm., Drífu Hjartardóttur o.fl., sem hafa vakið máls á því sérstaklega, hvort sem um er að ræða heimili fólks eða atvinnuhúsnæði.

Þá er mjög mikilvægt að bæta upplýsingaflæðið. Mikil gagnrýni hefur komið fram frá fólki sem telur sig ekki hafa fengið nægar upplýsingar. Hv. þm. Árni Johnsen vildi leiðrétta einhvern misskilning sem á að hafa verið á ferðinni í mínu máli en ég geri mér ekki alveg grein fyrir í hverju sá misskilningur er fólginn vegna þess að ég tel að hann hafi ekki komið fram í mínum málflutningi. Það er rétt sem hann nefndi að það hefur verið tilkynnt um 1.700 tjón en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur um 900 málum verið lokið. Hann nefndi 1.000. Ég veit ekki hvað rétt er í því en eftir stendur að um helmingur þeirra tjóna sem tilkynnt hafa verið er ekki að fullu afgreiddur og þessu þarf að hraða.

Ég fagna því sérstaklega sem fram kom hjá hæstv. forsrh. að nauðsyn beri til að taka til endurskoðunar lög og vinnureglur Viðlagatryggingar og reyndar þarf að taka til endurskoðunar öll þau lög sem á reynir við náttúruhamfarir af þessu tagi og ég er vongóður um að um það geti skapast þverpólitísk samstaða og sátt að hrinda þeirri vinnu fram.