Aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001

Miðvikudaginn 04. október 2000, kl. 15:03:37 (58)

2000-10-04 15:03:37# 126. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál sumarið 2001# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er rædd tillaga um að efnt verði til sérstaks sumarþings um byggðavandann. Við í Frjálslynda flokknum tökum undir þessa hugmynd. Við erum tilbúin til þess að sitja hér sumarlangt ef það mætti verða til þess að tekið yrði markvisst á byggðamálunum í heild.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram að byggðamálin koma inn á nánast alla málaflokka og er hægt að tengja þau við umræður um öll möguleg mál, hvort sem það eru skattamál, menntamál, samgöngumál, félagsmálefni, svo ekki sé gleymt atvinnumálum.

Þróunin í byggðamálum hér á landi og flóttinn af landsbyggðinni, ef hægt er að orða það þannig, er að mínu viti eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í þessu þjóðfélagi. Við getum spurt okkur hvaða orsakir séu fyrir því og við höfum sjálfsagt á því misjafnar skoðanir. Ég hef þá skoðun að það vitlausasta sem við höfum gert í byggðamálum sé að reyna með markvissri stefnu í sjávarútvegsmálum að taka atvinnugrunninn undan mörgum byggðarlögum. Það gerist innan kvótakerfis okkar að ekkert skipulag er á því og engin hindrun á því hvernig kvótinn fer í raun og veru á milli byggðarlaga. Þetta hefur orðið til þess að einstaka byggðarlög hafa verið að eflast. Við getum t.d. talað um Akureyri þar sem fiskiskipum hefur fjölgað og aflaheimildir aukist. Svo getum við talað um svæði eins og Vestfirði þar sem fiskiskipum hefur fækkað, sérstaklega stærri fiskiskipum, og stór hluti aflaheimildanna farinn af svæðinu.

Ég set beint samhengi á milli þeirra svæða sem standa hvað verst á landinu og tilflutnings á þessum grunnrétti sjávarbyggðanna, að hafa heimildir til að sækja sjó, veiða fisk, sérstaklega á sínum miðum og starfa við þá undirstöðuframleiðslu.

Ég heyri á máli margra að þeir tala um það í dag að menn þurfi að líta til annarra átta og framtíðin þurfi að byggjast á einhverju öðru en fiskveiðum og landbúnaði. Gott og vel. Ekki ætla ég að hafna því að rétt sé að horfa til framtíðar með það að þjóðfélag okkar breytist eins og önnur þjóðfélög. Hins vegar er varla hægt að mæla á móti því að það er óskynsamlegt að rífa fyrst undan byggðalögunum, vera með stefnu í gangi sem rífur atvinnufestuna sem hefur verið fyrir í byggðarlögunum burt úr byggðunum og eyðileggur í raun og veru þann þekkingargrunn sem hefur verið byggður upp í byggðarlögum við frumúrvinnslu eins og við fiskvinnslu og fiskveiðar. Auðvitað væri miklu betra ef menn gætu haft þessa undirstöðu, byggt á henni sem festu í kjarna viðkomandi byggðar og haldið svo áfram að þróa þjóðfélagið og þróa atvinnuhætti og byggð til nýrra viðhorfa og fjölgað atvinnutækifærum og byggt upp.

Ég veit varla hvernig ég ætti að lýsa því í skýrustu máli hvernig ég lít á þá stefnu sem hefur verið í framkvæmd hér á landi. Í mínum huga er hún nánast eins og sagan um Bakkabræður. Fyrst taka menn botninn úr tunnunni, þá verður ekkert í henni, svo reyna menn að bera sólskinið inn í húfu. Það er náttúrlega hægt að halda svo lengi á húfunni í sólskini að hún volgni, maður fari með hana volga inn, nái að setja hana upp og horfi svo á hana og furði sig á því að það skuli ekki takast nein uppbygging. En það breytir ekki því að alla undirstöðu vantar.

Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki þá útfærslu að menn skuli ætla að keyra þá útfærslu inn í framtíðina eins og virðist vera, að taka frá sjávarbyggðunum aflaheimildirnar, sem er grunnur þess að þessar sjávarbyggðir eru til, og ímynda sér svo að það takist á einhverjum stuttum tíma að byggja þar upp nýja atvinnu sem komi í staðinn.

Ég fór í gærkvöldi með tölu og tilvitnanir úr því kjördæmi sem ég kem frá, Vestfjörðum. Ég ætla aðeins eftir minni að bæta um betur.

Þær aflaheimildir sem hafa farið frá Vestfjörðum úr stóra kvótakerfinu þýða í raun og veru það að við misstum störf bara við tilfærsluna á kvótanum frá Básafelli sem gerðist núna síðast á Ísafirði, eitt hundrað sjómanna á þeim skipum og með þeim aflaheimildum sem þá fóru. Það er einfaldlega þannig að fiskimannastörfin á öflugum og góðum skipum eru oft hálaunastörf í þessum byggðum og hafa gefið sveitarfélögunum undirstöðu og tekjur.

Svo er það líka þannig og allt í lagi að rifja það hér upp að fiskveiðarnar kalla á mikla þjónustu og mikla úrvinnslu í landi. Það er oft og tíðum mannaflsfrekt að vinna úr aflanum þó þar hafi auðvitað verið ákveðin tækniþróun á ferðinni eins og annars staðar. En þær eru ekki síður viðhaldsfrekar. Þá komum við að iðnaðarmönnunum, þjónustufyrirtækjunum, skipasmiðjunum, vélsmiðjunum.

Þannig fléttast áhrif sjávarútvegsins, ef hann er sæmilega öflugur í viðkomandi byggðum, sem mjög mikil undirstaða og oft nokkur festa í öllum þeim byggðum sem hafa getað búið við þá festu.

Það er því svo að þegar þessi festa fer burtu, og þó menn ákveði eða nái því takmarki að fjölga um tvö störf í ferðamennsku, þrjú í fjarvinnslu, þá kemur ekkert í staðinn fyrir það sem ég nefndi, einn, tveir og þrír. Það gerist kannski á tíu, tuttugu árum.

Þetta held ég að menn verði að hafa í huga þegar þeir eru að ræða um byggðamálin. Þess vegna orða ég það þannig eins og ég sagði áðan, það er fyrst eins og farið sé með tóma tunnu, tekinn úr henni botninn og síðan reynt að bera sólskinið inn í húfu.