Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 10:34:03 (72)

2000-10-05 10:34:03# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[10:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 2001. Í ræðu minni mun ég fjalla um helstu áhersluatriði ríkisstjórnarinnar í efnahags- og ríkisfjármálum eins og þau birtast í þessu fjárlagafrv. Auk þess mun ég gera grein fyrir helstu efnisatriðum frv. og efnahagsforsendum. Loks mun ég fjalla um horfur í ríkisfjármálum til nokkurra næstu ára og markmið ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Það er afar ánægjulegt að geta þriðja árið í röð flutt hér fjárlagaræðu og greint frá því að fjárlagafrv. geri ráð fyrir meiri afgangi á ríkissjóði en nokkru sinni fyrr. Í þetta sinn er lagt upp með rúmlega 30 milljarða króna tekjuafgang sem svarar til 4,2% af landsframleiðslu. Lánsfjárafgangur er enn meiri eða tæplega 35 milljarðar króna. Svo mikill afgangur á fjárlögum hygg ég að sé einsdæmi í íslenskri hagsögu. Jafnframt er einstakt að þriðja árið í röð séu horfur á afgangi á ríkissjóði sem er yfir 20 milljörðum króna. Samkvæmt þessu mun samanlagður tekjuafgangur frá árinu 1999 nema 80 milljörðum króna. Samanlagður lánsfjárafgangur er enn meiri, eða um 90 milljarðar króna, og um 105 milljarðar ef við bætum árinu 1998 við. Þessi góða afkoma hefur fyrst og fremst verið nýtt til þess að grynnka á skuldum með þeim árangri að hreinar skuldir ríkissjóðs munu lækka úr 170 milljörðum króna í árslok 1997 í 100 milljarða í lok ársins 2001 samkvæmt áætlun frv. Hrein skuldastaða í hlutfalli við landsframleiðslu lækkar á þessu tímabili úr 32,5% í 14% eða um meira en helming. Þetta er framúrskarandi árangur sem skipar Íslandi í fremstu röð á alþjóðavettvangi í þessu tilliti.

Þær tölur sem ég hef nú rakið lýsa með einföldum en afar skýrum hætti megináherslum efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það ætti því enginn að þurfa að velkjast í minnsta vafa um að meginskilaboð þessa fjárlagafrv. eru að ríkisstjórnin hyggst áfram fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum til þess að tryggja stöðugleikann í efnahagsmálum og greiða niður skuldir. Þetta markmið verður haft að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku líkt og verið hefur að undanförnu.

En þótt þetta fjárlagafrv. sé aðhaldssamt er það ekki afturhaldssamt í þeim skilningi að ekkert nýtt komi þar fram. Þvert á móti er þar víða að finna mörg atriði sem stuðla að framförum og aukinni velmegun. Má þar nefna sérstök framlög til fjölskyldumála, bæði hækkun barnabóta og fæðingarorlofsframlaga, aukin framlög til þróunarhjálpar, til rannsókna og þróunarstarfsemi, meðal annars til eflingar íslenska upplýsingasamfélaginu, sérstaka hækkun lífeyrisbóta umfram almennar launahækkanir og auknar framkvæmdir við vegi og hafnir, einkum þar sem ekki er þensla á vinnumarkaði.

Ég hygg að það sé óumdeilt að sterk staða ríkisfjármála hefur hamlað gegn innlendri eftirspurn að undanförnu og þannig stuðlað að auknu jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Auðvitað vantar ekki hugmyndir um hvernig megi verja tekjuafgangi ríkissjóðs til ýmissa nytsamlegra verkefna. En í mínum huga skiptir þó enn þá mestu að við höldum áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs og búum þannig í haginn fyrir komandi kynslóðir og verjumst hugsanlegum áföllum í efnahagsmálum.

Áður en ég geri grein fyrir því hvernig stjórnvöld hafa á undanförnum árum með aðgerðum sínum gjörbreytt rekstrarumhverfi atvinnulífsins verð ég að segja að mér finnst efnahagsumræðan að undanförnu oft hafa rist nokkuð grunnt. Menn hafa haft tilhneigingu til þess að horfa á tilteknar, oft einangraðar hagstærðir og draga af þeim ansi djarfar ályktanir. Mér finnst sem menn hafi í hita leiksins stundum ekki séð skóginn fyrir trjánum. Af því tilefni finnst mér mikilvægt að undirstrika það meginatriði að staða efnahagsmála hér á landi er í grundvallaratriðum afar traust. Þetta er ekki einungis mat innlendra sérfræðinga heldur hafa fjölmargir erlendir sérfræðiaðilar lýst sömu skoðun. Enn fremur hafa menn verið sammála um að trausta stöðu efnahagsmála megi ekki síst rekja til efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar undanfarin ár og margvíslegra aðgerða hennar til þess að styrkja undirstöður atvinnulífsins og treysta afkomu heimilanna enn frekar.

Þannig hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir víðtækum skipulagsbreytingum á mörgum sviðum. Tekið hefur verið til hendinni í lífeyrismálum með það að markmiði að treysta stöðu lífeyrissjóða og þar með lífeyrisþega auk þess að stuðla að auknum þjóðhagslegum sparnaði. Þá hafa skattamál verið tekin til gagngerrar endurskoðunar til þess að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og lækka jaðarskatta heimilanna. Loks hafa stjórnvöld á undanförnum árum beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum á fjármagnsmarkaði með það að markmiði að auka frjálsræði inn á við sem út á við og treysta þannig stöðu innlends peningamarkaðar.

Allar þessar aðgerðir sem endurspegla efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa rennt traustari stoðum undir íslenskt atvinnulíf og um leið skapað rekstrargrundvöll fyrir ýmsar nýjar atvinnugreinar á sviði upplýsingatækni, hugbúnaðargerðar, fjarskipta og líftækni svo nokkur dæmi séu nefnd, en þessar greinar tilheyra allar hinu svokallaða nýja hagkerfi. Í kjölfarið hefur framleiðni í atvinnulífinu aukist meira á undanförnum árum en áður eru dæmi um og afkoma fyrirtækja í flestum greinum batnað frá því sem áður var. Þessi þróun hefur átt sinn þátt í að tryggja meiri hagvöxt hér á landi á síðustu árum en í helstu nágrannaríkjunum. Kaupmáttur heimilanna hefur einnig aukist hröðum skrefum og atvinnuleysi er ekki lengur fyrir hendi. Þá hefur tekist að skapa meiri stöðugleika á vinnumarkaði með kjarasamningum til næstu 3--4 ára sem stuðla að traustara starfsumhverfi fyrir fyrirtæki og launafólk og efnahagslífið almennt.

Í framhaldi af þessu langar mig að fara nokkrum orðum um nýja hagkerfið svokallaða og hugsanleg áhrif þess hér á landi. Á síðustu missirum hefur verið mikil umræða um stórfellda framleiðniaukningu í ýmsum hinna nýju hátæknigreina, þ.e. hinu nýja hagkerfi. Fyrst um sinn sneri þessi umræða einkum að Bandaríkjunum þar sem þessara áhrifa gætti hvað mest og virtist ein meginskýringin á langvarandi hagvexti þar í landi. Síðan hefur umræðan einnig tekið til annarra landa, ekki síst Evrópuríkja.

En í hverju er hið nýja hagkerfi fólgið og hver eru áhrif þess? Nýja hagkerfið á í meginatriðum rætur að rekja til hinna gífurlegu tækniframfara á síðustu árum. Síaukin tölvu- og netvæðing í efnahagslífinu hefur í vaxandi mæli haft áhrif á framleiðslu- og þjónustuhætti í atvinnulífinu í átt til aukinnar framleiðni og þar með aukins hagvaxtar í flestum iðnríkjum. Í Bandaríkjunum eru þess skýr merki að hagvöxtur og framleiðni fari vaxandi sem sýnist mega rekja til aukinnar tölvu- og netvæðingar. Hagvöxtur virðist þar kominn á nýtt og hærra stig og niðursveifla í efnahagslífinu sem áður varð með reglubundnu millibili lætur á sér standa. Sömu þróunar gætir víða í Evrópu, þótt hún sé nokkuð á eftir Bandaríkjunum.

Þótt ekki sé hægt að mæla áhrif tölvu- og netvæðingar, og þar með áhrif nýja hagkerfisins, með óyggjandi hætti hér á landi sjást þess nú þegar nokkur merki í innlendum hagstærðum. Þannig var hagvöxtur á árunum 1996--2000 um 26% fyrir tímabilið í heild. Í fyrri uppsveiflum tengdist vöxturinn velgengni sjávarútvegs að miklu leyti. Þessi uppsveifla á sér hins vegar stað að mestu án atbeina sjávarútvegs þar sem vöxtur í þeirri grein hefur verið lítill á þessu tímabili. Hér gætir að vísu áhrifa nokkurra stóriðjuframkvæmda, en þær skýra aðeins hluta af heildarmyndinni. Mestur vöxtur hefur orðið í hinum nýju hátæknigreinum á sviði upplýsingatækni, fjarskipta, hugbúnaðar, líftækni o.s.frv. Áhrifa þessara öru breytinga gætir víða. Mikil eftirspurn er eftir fólki með tölvukunnáttu og laun há. Flest fyrirtæki nota sér tölvutækni í einhverju formi og tölvuþjónusta og hugbúnaðargerð er orðin meiri háttar framleiðslugrein með nokkur þúsund störfum. Upplýsingar OECD sýna að Ísland er þriðji mesti notandi netsins meðal OECD-ríkja, á eftir Bandaríkjunum og Finnlandi, og er í fyrsta sæti sem mesti notandi GSM-síma.

Mín niðurstaða er því sú að við séum vissulega að njóta jákvæðra áhrifa nýja hagkerfisins hér á landi. Um það vitna stórfelldar framfarir í hinum ýmsu hátæknigreinum undanfarin ár. Við höfum hins vegar aðeins séð forsmekkinn af jákvæðum áhrifum hinnar nýju tækni í hinum hefðbundnu atvinnugreinum til þessa dags. Ég tel að við munum á næstu árum upplifa miklar breytingar í atvinnulífinu, ekki einungis í nýju hátæknigreinunum, heldur ekki síður í hefðbundnari greinum atvinnulífsins sem eiga í vaxandi mæli eftir að nýta sér kosti nýja hagkerfisins og skila aukinni framleiðni. Ég vil í þessu samhengi nefna að í næsta mánuði mun fjármálaráðuneytið halda ráðstefnu þar sem fjallað verður um nýja hagkerfið og áhrif þess, bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Meðal ræðumanna þar verður Dr. Martin Baily en hann er helsti efnahagsráðgjafi Bandaríkjaforseta og formaður ráðgjafanefndar forsetans í efnahagsmálum.

Víkjum þá aftur að stöðunni hér heima. Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum í því skyni að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og gera fyrirtækjum kleift að fóta sig í því alþjóðlega efnahagsumhverfi sem við búum við. Enn fremur hafa mikilvæg skref verið stigin í átt til einkavæðingar og minni ríkisumsvifa með sölu hlutabréfa í bönkunum þar sem einn ríkisbanki er nú alfarið kominn í einkaeign og undirbúningur einkavæðingar hinna tveggja er kominn vel á veg. Sömu sögu er að segja af Landssímanum. Öll þessi atriði stuðla að því að bæta efnahagslega stöðu Íslands og gera atvinnulífið samkeppnishæfara á alþjóðamarkaði.

Ég vil hins vegar benda á að þróunin á alþjóðamarkaðnum er hröð og því er nauðsynlegt að fylgjast grannt með og búa sig undir frekari breytingar á þessu sviði. Ýmsar skattalegar aðgerðir á undanförnum árum hafa styrkt samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og rennt stoðum undir vöxt fyrirtækja, ekki síst hvað varðar nýjar atvinnugreinar. Mikil gróska í mörgum hinna nýju fyrirtækja er skýrt dæmi um þessi áhrif. Vegna vaxandi alþjóðlegrar samkeppni tel ég mikilvægt að huga nú að frekari breytingum og lagfæringum á skattalegu umhverfi fyrirtækja og treysta þannig stöðu íslensks atvinnulífs enn frekar. Í þessu skyni þarf í senn að skoða mögulega lækkun tekju- og eignarskatta, einkum hjá fyrirtækjum, lagfæringar á stimpilgjaldi o.fl. Þessar aðgerðir hafa verið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu um nokkurt skeið með það að markmiði að þær komi til framkvæmda síðar á kjörtímabilinu.

[10:45]

Herra forseti. Ég mun nú víkja nánar að helstu þáttum fjárlagafrv. bæði hvað varðar einstaka efnisþætti á tekju- og gjaldahlið og helstu efnahagsforsendur.

Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári eru áætlaðar 240,3 milljarðar króna eða um 15 milljörðum hærri en í ár. Hækkunin milli ára skýrist að mestu af auknum skatttekjum. Af einstökum tekjuliðum má nefna að tekjur af virðisaukaskatti eru taldar hækka um 5 milljarða frá áætlun í ár. Tekjuskattar einstaklinga og fyrirtækja eru taldir skila 3,5 milljörðum króna meiri tekjum á næsta ári en í ár, sem alfarið má rekja til tekjuskatts einstaklinga í takt við hækkun launa. Tekjuskattur fyrirtækja er hins vegar talinn skila minni tekjum á næsta ári en í ár vegna heldur lakari afkomuhorfa á árinu 2000. Tekjur af sölu eigna eru taldar hækka um 2,5 milljarða króna á næsta ári og skila um 7 milljarða söluhagnaði. Þessi áætlun er þó óviss þar sem ákvarðanir um eignasölu á næsta ári hafa enn ekki verið teknar, en líklegt er að áætlunin sé fremur varkár og að tekjur af sölu eigna verði mun meiri þegar upp er staðið.

Tekjur af sölu eigna hafa bæði gengið til þess að lækka almennar skuldir ríkisins og eins til þess að grynnka á lífeyrisskuldbindingum með því að styrkja eiginfjárstöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þessari stefnu verður fram haldið á næstu árum og stærstum hluta sölutekna varið til þess að greiða upp skuldir. Auk þessa verður hluta teknanna varið til sérstakra verkefna í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Áður en ég yfirgef tekjuhlið ríkissjóðs langar mig til að nefna þær breytingar sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir sl. haust til þess að draga úr áhrifum olíuverðshækkana á heimsmarkaði á íslenskt efnahagslíf. Umræður og mótmælaaðgerðir í mörgum löndum að undanförnu vegna hins háa bensínverðs þar sem krafist er lækkunar gjalda hins opinbera af eldsneyti til mótvægis hafa varla farið fram hjá mönnum. Mér finnst af þessu tilefni ástæða til þess að rifja það upp að ríkisstjórnin tók ákvörðun um það þegar fyrir ári síðan að bregðast við óæskilegum áhrifum hækkandi bensínverðs á afkomu einstaklinga og atvinnulífs með breytingum á skattlagningu á bensíni. Í stað hlutfallslegs gjalds á bensín var tekið upp fast krónugjald á hvern lítra þannig að breytingar á bensínverði á heimsmarkaði hafa ekki lengur áhrif á tekjur ríkissjóðs með sama hætti og áður. Þetta hefur reynst mjög mikilvæg og hyggileg ákvörðun enda hefur hún orðið til þess að draga verulega úr áhrifum hækkandi bensínverðs á heimsmarkaði á íslenskt efnahagslíf eins og sjá má af því að óbreytt skattlagning bensíns hefði líklega skilað ríkissjóði um 900 milljónum króna í auknum tekjum á ársgrundvelli.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að breyta barnabótakerfinu með það að markmiði að draga úr tekjutengingu þess í samræmi við stefnuyfirlýsingu hennar og yfirlýsingar í tengslum við gerð kjarasamninga á liðnum vetri. Jafnframt verða frítekjumörk hækkuð og eignatenging afnumin. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi af þremur komi til framkvæmda á næsta ári. Þessar breytingar munu koma öllu barnafólki til góða, einkum þó fólki með miðlungs eða lágar tekjur. Lagt verður fram sérstakt frv. um þetta efni innan tíðar.

Núgildandi tilhögun vaxtabóta hefur sætt nokkurri gagnrýni að undanförnu og hún jafnvel talin hvetja til óeðlilegrar skuldasöfnunar. Jafnframt hefur vaxtabótakerfið þótt torskilið auk þess sem tekju- og eignatenging bótanna getur leitt til hárra jaðarskatta. Þessi atriði verða á næstunni tekin til nánari skoðunar með það að markmiði að sníða þessa annmarka af.

Heildargjöld ríkissjóðs eru áætluð 210 milljarðar króna árið 2001 og hækka um 11 milljarða frá áætlun þessa árs. Til marks um aukið aðhald vek ég athygli á því að útgjöld ríkissjóðs hækka minna en heildarútgjöld þjóðarbúsins. Þannig munu rekstrargjöld ríkissjóðs nánast standa í stað þar sem ríkisstjórnin setti sér það markmið að hagræða í rekstrargjöldum á móti nýjum verkefnum. Hins vegar munu tekjutilfærslur til heimilanna hækka nokkuð milli ára, meðal annars vegna stofnunar sérstaks Fæðingarorlofssjóðs í kjölfar nýrra laga um foreldra og fæðingarorlof og ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að hækka barnabætur um þriðjung á næstu þremur árum. Einnig eru framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna hækkuð og framlög til búvöruframleiðslu hækka tímabundið vegna uppkaupa á framleiðslurétti sauðfjárbænda. Loks hækka framlög til stofnkostnaðar um 2 milljarða króna sem skýrist einkum af auknum framlögum til vegamála í samræmi við vegáætlun. Við núverandi aðstæður er talið réttlætanlegt að auka vegaframkvæmdir þar sem tilboð í verkefni hjá Vegagerðinni hafa að undanförnu verið mjög hagstæð miðað við kostnaðaráætlanir og ljóst að ekki gætir þenslu við jarðvegsframkvæmdir í sama mæli og í almennri byggingarstarfsemi. Engu að síður er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir frestun framkvæmda um tæplega 1 milljarð króna á þessu sviði og annað eins hjá hinum ýmsum ráðuneytum, eða samanlagt um 2 milljarða króna. Af þessum tölum má ráða að ríkisstjórnin mun áfram leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og draga úr viðskiptahalla.

Herra forseti. Það eru engin ný sannindi að uppsveifla í efnahagslífinu leiðir til meiri verðbólgu og aukins viðskiptahalla. Þetta á einnig við um Ísland. Slík þróun er þó ekki einskorðuð við Ísland enda eru vaxandi verðbólga og aukinn viðskiptahalli gjarnan fylgifiskar uppsveiflu í efnahagslífinu, ekki síst þegar hún er eins kröftug og hér hefur verið. Bandaríkin, Írland og Bretland eru nærtæk dæmi þar sem mikill hagvöxtur ár eftir ár hefur kynt undir verðbólgu og viðskiptahalla.

Ég vil hins vegar vekja sérstaka athygli á því að viðskiptahallinn nú stafar ekki af skuldsetningu ríkissjóðs heldur annarra aðila í þjóðfélaginu. Á þessu er grundvallarmunur. Þróunin nú endurspeglar m.a. trú þessara aðila á möguleikum sínum til endurgreiðslu þessara skulda og þar með traust þeirra á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og áframhaldandi stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Sterk staða ríkissjóðs hefur verið mikilvægt mótvægi gegn áhrifum aukinnar skuldasöfnunar annarra aðila á innlenda eftirspurn og viðskiptahalla.

Í spá Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði um 54 milljarðar króna árið 2000, eða sem svarar til 8% af landsframleiðslu. Á næsta ári er spáð svipaðri niðurstöðu þegar á heildina er litið. Frekari greining á viðskiptahallanum eftir einstökum þáttum leiðir hins vegar í ljós hagstæðari niðurstöðu en ætla má við fyrstu sýn og í raun má ganga svo langt að segja að um viðsnúning sé að ræða. Halli á vöruskiptajöfnuði er minni, en þjónustujöfnuður er heldur óhagstæðari fyrst og fremst vegna hærri vaxtagreiðslna af erlendum lánum. Gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og að viðskiptahallinn fari lækkandi á næstu árum. Þessi niðurstaða endurspeglar minnkandi eftirspurn og betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Þrátt fyrir mikinn og vaxandi viðskiptahalla hefur veruleg breyting orðið á eignamyndun Íslendinga erlendis. Hér áður fyrr þegar stjórnvöld glímdu við viðvarandi viðskiptahalla var hallinn því sem næst eingöngu fjármagnaður af beinum lántökum opinberra aðila á erlendum mörkuðum. Viðskiptahallinn var þannig í reynd með ríkisábyrgð. Nú horfir öðruvísi við. Í fyrsta lagi hafa beinar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi aukist umtalsvert. Um síðustu áramót námu beinar fjárfestingar erlendra aðila alls rúmum 35 milljörðum króna og hafa nær þrefaldast á fjórum árum. Eignarhald útlendinga hér á landi hefur þannig aukist og fjárfesting í atvinnulífinu er í auknum mæli fjármögnuð með beinum hætti erlendis frá.

Íslendingar hafa einnig leitað í auknum mæli út fyrir landsteinana til fjárfestinga. Þetta á bæði við um beinar fjárfestingar íslenskra fyrirtækja á erlendri grund en þær námu um 30 milljörðum króna í árslok 1999. Auk þess hafa eignir stofnanafjárfesta og einstaklinga í útlöndum stóraukist, einkum í erlendum hlutabréfum. Um síðustu áramót var talið að heildareignir íslenskra aðila í útlöndum næmu um 242 milljörðum, eða um 40% af landsframleiðslu, og höfðu þá aukist um 90 milljarða milli ára. Þar af námu eignir lífeyrissjóða 97 milljörðum og hafa aukist mikið síðan. Þannig hefur eignamyndun Íslendinga erlendis haldist nokkuð í takt við auknar erlendar skuldir.

Ríkisfjármál hafa tekið stakkaskiptum á þessu áratug. Í stað viðvarandi hallareksturs skilar ríkissjóður nú umtalsverðum afgangi sem gerir það að verkum að skuldir ríkissjóðs fara nú hratt minnkandi. En fjárhagsstaða opinberra aðila, eins og annarra, er háð efnahagsástandinu á hverjum tíma. Þegar vel árar aukast tekjurnar vegna vaxandi umsvifa í hagkerfinu jafnframt því sem ýmis útgjöld svo sem atvinnuleysisbætur dragast saman. Að sama skapi versnar fjárhagurinn þegar illa árar vegna minnkandi skatttekna og aukinna útgjalda. Mat á undirliggjandi stöðu ríkisfjármála byggist á því að greina áhrif hagsveiflunnar frá öðrum áhrifum sem segja til um tekjur og gjöld óháð efnahagsástandinu á hverjum tíma. Þótt mikill hagvöxtur og vaxandi umsvif í hagkerfinu eigi vissulega þátt í sífellt betri afkomu ríkissjóðs að undanförnu hefur undirliggjandi staða, eða hin kerfislæga afkoma eins og það er kallað, einnig batnað ár frá ári. Í ár er talið að kerfisafgangur ríkissjóðs svari til 1,5% af landsframleiðslu, eða 10 milljarða króna, og á næsta ári stefnir hann í 2%, eða um 15 milljarða króna samkvæmt fjárlagafrv. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að allt tal um að mikill afgangur á ríkissjóði sé eingöngu tengdur efnahagsuppsveiflunni og viðskiptahallanum er út í hött. Þeir sem þannig tala hafa ekki áttað sig á breyttum aðstæðum.

Vaxandi eignir Íslendinga í útlöndum valda því að hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa ekki aukist sem nemur viðskiptahallanum eins og ætla mætti að öðru óbreyttu. Á síðasta ári jukust hreinar erlendar skuldir um 18,5 milljarða króna á sama tíma og viðskiptahallinn nam 40 milljörðum króna. Munurinn stafar af eignamyndun Íslendinga í útlöndum. Þessar tölur segja sína sögu um breytt eðli viðskiptahallans.

Upp á síðkastið hafa komið fram sífellt fleiri vísbendingar um að hægt hafi á innlendri eftirspurn. Innflutningsaukningin er í rénun og bílainnflutningur hefur beinlínis dregist saman frá síðasta ári. Einnig hefur dregið úr fjölda lánsumsókna í húsnæðiskerfinu. Loks sýna nýjustu tölur úr bankakerfinu að útlánaaukning hjá einstaklingum er að minnka. Allt eru þetta ótvíræðar vísbendingar um minnkandi innlenda eftirspurn og að fram undan sé tímabil meiri stöðugleika.

Síðustu verðmælingar benda enn fremur til þess að verðbólga fari nú hjaðnandi. Tvöföldun olíuverðs og hækkun íbúðaverðs eftir stöðnun mörg undanfarin ár leiddu til þess að hækkun neysluverðsvísitölu fór úr um það bil 2% að jafnaði á árunum 1994--1998 í 5--6% á síðari helmingi síðasta árs, 1999, og fyrri helmingi ársins 2000. Margt bendir til þess að hækkun fasteignaverðs sé nú í rénun og að olíuverð hafi náð hámarki. Þessarar þróunar gætir nú þegar þar sem tólf mánaða hækkun verðlags hefur farið úr 5,5--6% á fyrstu mánuðum ársins í 3--4% að undanförnu eftir því við hvaða mælikvarða er miðað og spáð er áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar á næstu mánuðum og missirum.

Spáð er heldur minnkandi hagvexti á næstu árum. Það er hins vegar meiri óvissa um efnahagshorfurnar nú en oft áður. Þetta á bæði við um áhrif niðurskurðar aflaheimilda á heildarframleiðslu í sjávarútvegi á næsta ári sem erfitt er að henda reiður á fyrir fram því að væntanlega munu menn í sjávarútvegi bregðast við þessum versnandi horfum á einhvern hátt til þess að draga úr neikvæðu áhrifunum. Auk þess skiptir tímabundinn samdráttur í sjávarútvegi ekki eins miklu máli nú fyrir heildarþróun efnahagsmála og á árum áður. Loks kann vöxtur ýmissa þeirra atvinnugreina sem verið hafa í mikilli uppsveiflu að undanförnu að verða meiri en gert er ráð fyrir í þessum spám. Sama kann að gilda um aðrar greinar þótt líklegt sé að vöxturinn verði hægari en á allra síðustu árum. Þannig verður að telja að óvissan í efnahagsspánum geti fremur leitt til hækkunar á hagvaxtarhorfum fyrir næstu ár heldur en lækkunar.

Herra forseti. Ég tel brýnt að varðveita þann árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum að undanförnu og móta efnahagsstefnu til nokkurra næstu ára. Áframhaldandi aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum á næstu árum stuðlar að stöðugu rekstrarumhverfi atvinnulífsins, skapar svigrúm til frekari niðurgreiðslu skulda og lækkunar skatta. Markviss stefnumótun til lengri tíma en eins árs eykur einnig trúverðugleika efnahagsstefnunnar til skemmri tíma og skapar aukna festu í hagstjórn. Í fjármálaráðuneytinu er nú unnið að slíkri stefnumótun sem ég mun leggja fyrir ríkisstjórn til frekari meðferðar og nánari útfærslu í haust.

Efnahagslegar forsendur þessara útreikninga eru í meginatriðum þær að nokkuð muni hægja á hagvexti á næstu árum og að hann verði nálægt 2,5% á ári að jafnaði, samanborið við 4,5% á síðustu fimm árum. Samkvæmt þessu verður meira jafnvægi í efnahagslífinu en verið hefur og um leið skapast forsendur fyrir stöðugleika til langs tíma. Jafnframt er gert ráð fyrir að hagvöxturinn verði í ríkari mæli borinn uppi af auknum útflutningi þar sem meðal annars mun í vaxandi mæli gæta áhrifa hinna fjölmörgu nýju atvinnugreina en vöxtur þeirra hefur verið afar mikill að undanförnu. Aftur á móti hægir verulega á vexti þjóðarútgjalda. Af þessu leiðir að viðskiptahallinn minnkar og verðbólgan lækkar niður á svipað stig og í helstu nágrannaríkjunum.

Niðurstaða þessara framreikninga er sú að afkoma ríkissjóðs verður áfram traust og kerfislægur afgangur verður um eða yfir 2% af landsframleiðslu að jafnaði á tímabilinu. Sú stærð sem ræður mestu um niðurgreiðslu skulda er hins vegar lánsfjárafgangurinn. Samkvæmt þessum framreikningum mun hann áfram verða mjög mikill, eða á bilinu 3--5% af landsframleiðslu, sem endurspeglar meðal annars áhrif af sölu ríkiseigna á næstu árum.

Samkvæmt þessum útreikningum mun áframhaldandi aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum því geta leitt til stórfelldrar lækkunar skulda á árunum 2002--2004. Jafnframt getur þetta orðið til þess að peningalegar eignir ríkisins nemi hærri fjárhæð en skuldir, þ.e. að hrein skuldastaða verði neikvæð. Það yrðu vissulega mikil tímamót.

[11:00]

Ég vil ljúka máli mínu, herra forseti, með því að ítreka meginskilaboð frv. um að ríkisstjórnin mun áfram fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum á næsta og næstu árum til þess í senn að tryggja stöðugleikann í efnahagsmálum og greiða niður skuldir. Sá árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum á undanförnum árum og mikill og vaxandi afgangur á ríkissjóði, sem nú er af stærðargráðunni 30 milljarðar króna eða meira, eru mikilvægt framlag í þessa veru. Um það verður ekki deilt.

Ég tel að mikilvægasta verkefni hagstjórnar sé að varðveita þann árangur í efnahagsmálum sem náðst hefur á undanförnum árum. Staða ríkisfjármála er hér í lykilhlutverki þar sem brýnt er að móta stefnu, ekki einungis fyrir næsta ár, heldur til nokkurra næstu ára til þess að auka festu í hagstjórninni. Ég tel það raunhæft markmið að greiða niður skuldir þannig að hreinar skuldir ríkissjóðs verði sem næst horfnar á árunum 2003--2004. Að því marki verður stefnt.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárln.