Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 13:33:08 (101)

2000-10-05 13:33:08# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[13:33]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Nú liggur fyrir þinginu fjárlagafrv. fyrir árið 2001. Það er að mörgu leyti athyglisvert að með þessu fjárlagafrv. hafa forustumenn Sjálfstfl. setið á stól á fjmrh. og stjórnað ríkisfjármálunum um tíu ára tímabil. Því er ekki ónýtt að skoða aðeins hvað hefur verið að gerast síðustu tíu árin.

Til að bera þetta saman er án efa eini rétti mælikvarðinn að gera það á grundvelli vísitölu samneyslunnar. Það er hinn eini rétti grundvöllur vegna þess að það segir í hvað ríkið er að borga. Hins vegar er ekki alveg víst hvernig við eigum að mæla þann kostnað sem ríkið hefur erlendis en það skiptir ekki máli hvernig við mælum hann. Þegar við förum yfir þetta og berum þetta saman kemur ýmislegt athyglisvert fram, sérstaklega með tilliti til málflutnings okkar ágætu pólitísku andstæðinga, stjórnarandstöðunnar. Stundum þegar þeir tala um okkur sjálfstæðismenn mætti ætla að við værum mjög harðsnúnir menn sem hefðum það helst á stefnuskránni að selja ömmu okkur hvenær sem nógu hagstætt tilboð bærist.

Ef við skoðum þróun þessara mála kemur dálítið annað í ljós. Kostnaðurinn af erlendum samskiptum hefur aukist mest, hvernig sem við mælum hann. Þar kemur mjög margt til. Það er náttúrlega breyting á umhverfinu, þ.e. samningar okkar og samstarf við erlendar þjóðir og ég skal aðeins koma að því seinna.

Þrír málaflokkar vekja athygli mína sem eru í efstu röð þeirra hækkana sem orðið hafa á síðustu tíu árum. Það eru háskólarnir á Íslandi og rannsóknastofnanir á Íslandi. Þessir tveir málaflokkar eru með allra mestu hækkunum sem orðið hafa á tíu árum og kemur það þvert á þá umræðu sem við heyrum dags daglega að verið sé að svelta menntastofnanir og rannsóknarstarf og þess vegna séum við ekki að búa í haginn fyrir framtíðina eins og ber. Þessu er alveg öfugt farið. Það hefur verið hvað mesta aukningin á fjármunum til háskólans og þar næst til rannsóknastofnana.

Í þriðja sæti þessarar aukningar, sem kemur enn þá meira á óvart miðað við umræðurnar, eru málefni fatlaðra. Í dag er mjög hávær umræða um að við stöndum okkur ekki nógu vel, við eigum að gera meira og betur fyrir fatlaða. Ég ætla að taka undir það. Það er eflaust allt satt og rétt. Hins vegar það sem gerst hefur á þessum áratug ber mjög fagurt vitni, bæði forustumönnum öryrkja og þeim þingmönnum og ráðherrum sem hafa farið með völdin. Það hefur verið unnið meira og betur að þessum málum en nokkurn tíma fyrr og vonandi berum við gæfu til að halda því áfram. En umræðan í samfélaginu er allt önnur. Hún er mjög hávær. Það er kannski út af fyrir sig gott að öryrkjar hafi beinskeytta og harða talsmenn og skulum við vona að þeim verði ágengt og framhald geti orðið á þessu.

Hins vegar vekur töluverða athygli mína skipting þess liðar sem hefur aukist mest sem er erlend samskipti. Ekki fer á milli mála, hvernig sem við mælum þetta, að kostnaðaraukinn er fyrst og fremst í nýjum embættum, nýjum sendiráðum, nýjum nefndum, nýjum samningum og gríðarlegur fjöldi af íslenskum starfsmönnum sem er farinn að taka þátt í störfum erlendis. Eflaust er það allt saman gott og gilt. Við aukum líka mjög kynni okkar af erlendum þjóðum. Við höfum líka aukið mjög erlend samskipti og opinberar heimsóknir, sem eru vonandi allar með kurt og pí, svona ,,cum eleganse``. Ég held að það eigi að vera áframhald á því, ég held að næsti þáttur í þessu eigi að vera á Indlandi innan skamms og það verður eflaust líka með miklum glæsibrag.

Hins vegar vekur það athygli mína þegar ég skoða þróun þessara mála á þessum áratug að aðstoð okkar við fátækar þjóðir og sveltandi fólk hefur ekki vaxið að sama skapi. Að vísu hefur orðið töluverð breyting á tvö síðustu árin en á tímabili á þessum áratug var bókstaflega lækkun á hjálp okkar til útlanda. Það sem meira er, herra forseti, ég heyri engan mótmæla. Ég heyri engan mótmæla því. Fátækt fólk í útlöndum og sveltandi fólk hjá erlendum þjóðum á engan málsvara hér. Ég velti þessu töluvert fyrir mér. Gæti verið að við Íslendingar séum dálítið sjálfhverf þjóð? Það gæti verið að svo sé.

Í umræðunni um ríkisfjármálin gagnrýnir stjórnarandstaðan réttilega sumt sem fram kemur. Kröfur koma fram um aukið aðhald og að við eigum að standa betur að þessum málum en við gerum. Ég get alveg tekið undir ýmislegt sem þar er sagt. Það er ýmislegt sem er verið að auka, kannski að óþörfu.

En við getum litið á hvað hefur aukist mest, t.d. í því frv. sem nú liggur fyrir okkur. Hvað er það sem hefur hækkað mest og hver er stærsta talan sem finnst þar? Jú, það liggur fyrir: Tvö þúsund og þrjú hundruð milljónir, fæðingarorlof. Hver samþykkti það? Jú, það var það háa Alþingi sem hér situr. Það gerðist í vor. Það fór fagnaðarbylgja um landið, fæðingarorlof, það átti nánast enginn að þurfa að borga þetta. Þegar kom að því að líta á töfluna yfir því hverjir fylgdu þessu var hún alveg græn. Að vísu var aðeins einn maður að röfla og reyna að vekja athygli manna á því að þetta kostaði neitthvað en það skipti engu máli. Öll stjórnarandstaðan studdi málið heils hugar. Þessi stærsti útgjaldaliður var sameiginleg ákvörðun.

Ég get nefnt fleiri. Fæðingarorlofið er kannski gott mál og allt í lagi með að þjóðin veiti sér það. Ég get nefnt fleiri liði sem fóru meira í taugarnar á mér en það. Útgjöld voru samþykkt sem koma fram í fjárlagafrv. upp á tugi milljóna, hingað og þangað um fjárlagafrv. Það var með þessa Schengen-vitleysu. Hverjir studdu það? Hvar var þá breiðfylking íslenskra jafnaðarmanna sem núna varar við of miklum útgjöldum? Hún stóð öll með hinni ágætu ríkisstjórn, hún studdi öll sem einn þetta stjórnarfrv. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort stjórnin geti treyst því að ef eitthvað er nógu vitlaust, þá fær hún stuðning þaðan frá. (Gripið fram í: Það var gott málefni.)

Þannig var þetta og þannig hefur þingið tekið þátt í flestu því sem hér er verið að auka. Það er ákvörðun þingsins og það hefur ekki einu sinni verið pólitískur ágreiningur. Þetta skulu menn hafa í huga. Það er mjög nauðsynlegt fyrir þá sem gagnrýna frv. að þeir verða að ætlast til þess og gera ráð fyrir því, ef einhver hlustar á þá, að þeir praktíseri það sem þeir predika. En það er ekki gert. Það verður að gera það ef við ætlum að taka okkur alvarlega. Þannig er kostnaðaraukinn að verða til, þannig erum við að leggja ný og ný lóð á kostnaðinn í samfélaginu. Hver haldið þið að borgi fæðingarorlofið? Það kemur í tryggingagjaldið. Auðvitað borga atvinnuvegirnir þetta. Það þyngir róðurinn fyrir þá. Það þyngir róðurinn fyrir okkur að standa vörð um íslenska gjaldmiðilinn, krónuna. Þetta verðum við að hafa í huga.

Ef við ætlum að halda áfram á þeirri farsældarbraut sem við höfum sannarlega verið á eru nokkur grundvallaratriði sem ber að hafa í huga. Það hefur verið farið í gegnum það mjög ítarlega að eitt af því sem er hvað þýðingarmest eru einmitt fjárlög. Á þessum áratug hefur tekist að gera þau ábyrg með mjög miklum afgangi þvert ofan í það sem var hér áður þegar ríkisfjármálin voru ein aðaluppspretta efnahagsvandans í þjóðfélaginu. Þá gat ríkið aldrei hamið útgjöld sín en nú hefur orðið veruleg breyting á.

Hitt atriðið sem á ekki hvað síst þátt í því að okkur hefur gengið betur en áður er að gerðir hafa verið á þessum áratug æ ofan í æ farsælir og ábyrgir kjarasamningar. Ef við ætlum að gera okkur vonir um að halda áfram á þessari braut þá verður svo að vera. Ég nefni þetta af því enginn annar nefnir það. Það er best að ég tali þá um það.

Núna eru uppi kröfur í þjóðfélaginu um veruleg frávik frá þeirri stefnu sem fylgt hefur verið. Menn tala um það opinskátt að þeim sé ekki minna sæmandi en að fá 70% kauphækkun eða svo. Ég get í sjálfu sér tekið undir það, svona fyrir hönd þjóðarinnar, því auðvitað er þessu kappakyni ekki sæmandi að fá minna en 70% kjarabætur. Ég veit að það er hægt að gera það, það tekur svona tíu til tólf, þrettán ár. Þá erum við á meiri farsældarbraut en nokkur önnur þjóð.

En á þessu ári voru gerðir kjarasamningar milli Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda. Þeir hljóta að marka sporin, þeir hljóta að marka það sem á eftir fer. Það yrði mjög alvarlegt fyrir framtíð íslensks efnahagslífs og afkomu Íslendinga ef frá væri vikið. Það hljóta að vera þeir samningar sem við höfum að leiðarljósi og allt frávik frá þeim hlýtur að vera mjög hættulegt. Í kjarasamningum, í þeirri viðkvæmu umræðu um kaup og kjör, hafa allir rétt fyrir sér þegar þeir segja að þeim beri þetta og réttlætið standi þeirra megin en því miður er þetta ekki spurning um réttlæti þegar á heildina litið, það er spurning um samhengi hlutanna. Það er það sem ræður úrslitum um gæfu eins samfélags eða ekki. Það er þetta sem gerist og þetta verðum við að hafa í huga. Þetta, hversu viðkvæmt sem það er, ber okkur að tala um á Alþingi. Þó það sé kannski sárt fyrir ákveðna kröfuhópa að þeim sé sagt þetta, þá er enn þá sárara og enn þá verra og það eina sem má ekki gera, þegar við ræðum um kaup og kjör fólks, að gefa fólki falskar vonir, segja því ósatt. Það væri að segja ósatt ef við tækjum ekki svona stíft til orða, segðum þetta nákvæmlega eins og það er: Það verður að fylgja þeirri stefnu sem Alþýðusamband Íslands og vinnuveitendur mótuðu fyrr á árinu. Það verður að gera það, annars er allt í voða sem verið er að gera. Það má ekki.

[13:45]

Hér hefur líka verið rætt um ýmsa viðkvæma hluti. Rætt hefur verið um málefni aldraðs fólks, málefni fatlaðra o.s.frv. Ég ætla aðeins fara nokkrum orðum um þá umræðu sem átt hefur sér stað svo ótal, ótal sinnum, upphrópanir á þessa leið: Misrétti hefur aukist í þjóðfélaginu, misrétti hefur aukist.

Ég hef velt þessu, herra forseti, oft fyrir mér, hvað eru menn að fara með þessu tali. Hvað er það sem menn vilja sagt hafa um að misrétti hafi aukist á Íslandi? Ég held að skýringin á því að menn noti þetta orð hljóti að vera sú að menn setji samasemmerki á milli misréttis og mismununar. En það er ákaflega vafasamur málflutningur að segja það. Ef við gerum það þá erum við að segja að allt sem sé jafnt sé þar með rétt. Við getum ekki leyft okkur að nota þessi orð.

En ef við förum til baka þá er það rétt að það hefur verið mismunað hér á nokkru og stærsta mismununin átti sér stað með samþykkt laga um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Sú samþykkt átti sér stað á jólaföstu 1997 ef ég man rétt. Það var eins og oft áður þegar mikilsverð mál eru til umfjöllunar að þau lög voru samþykkt með öllum atkvæðum stjórnarandstöðunnar og með öllum atkvæðum stjórnarsinna nema einu. Það var einn sem var á móti af þeirri ástæðu að hann taldi ofrausn vera fólgna í þessari lagasetningu.

Rökin fyrir því að fara þá leið, breyta þessum sjóðum, setja þá í þessi tvö form, a- og b-deild, voru þau að menn töldu að opinberir starfsmenn, bæði lögregluþjónar og tollverðir, kennarar jafnt sem hjúkrunarfræðingar og ótal margir ágætis starfsmenn stjórnsýslunnar hefðu langa ævi unnið ríkinu vel fyrir tiltölulega lágt kaup miðað við svo marga, marga aðra. Því væri það rétt og skylt að bæta eftirlaunakjör þeirra og það var gert. Það var gert í nafni réttlætisins.

Þessir samningar höfðu í för með sér skuldbindingar fyrir hönd ríkisins sem ekki eru undir 50 þúsund milljónum ef við lítum til langtímans. En nú koma einmitt þeir sem í nafni réttlætisins stóðu að þessari lagabreytingu og segja: Heyrðu, þetta var misrétti.

Hvernig má þetta vera? Hvernig geta menn hagað máli sínu þann veg að kalla það misrétti sem þeir sjálfir samþykktu í nafni réttlætisins?

Það er rétt að opinberir starfsmenn hafa fengið meiri bætur og lífeyrissjóðir þeirra standa betur en annarra, það er rétt. Og við samþykktum þá lagabreytingu, við gerðum það, allur þingheimur, stjórnarandstaðan jafnt sem stjórnarsinnar, í nafni þess að það væri réttlætismál. Nú þegar menn fjalla um kjör aldraðra er rétt að hafa þetta í huga.

Deilumálið mikla um kjör aldraðra liggur í þessum vandræðaskap varðandi skerðinguna, þ.e. við erum með tekjutengdar bætur. Hvenær hófust þessar tekjutengdu bætur? Þær hófust á áttunda áratugnum, herra forseti. Þær hófust á áttunda áratugnum ekki síst fyrir atbeina og þrýsting verkalýðshreyfingarinnar sem réttilega benti á það að sjómenn, verkamenn og bændur stæðu miklu verr að vígi en margir aðrir þjóðfélagsþegnar gagnvart eftirlaunum sínum. Til að mæta þessu byrjuðum við á því að vera með tekjutengdar viðbætur. Það var þannig sem þetta upphófst. Þannig gerðist það og við verðum að hafa það í huga hvert upphafið var.

Tekjutengingar á bótum verða alltaf til vandræða, ég er alveg sannfærður um það, þær verða alltaf til vandræða. Það er gríðarlega erfitt um að fjalla og mjög eðlilegt að það rekist á ýmsa einstaklinga. Það er mjög skiljanlegt að einstaklingar sem eru kannski nýhættir að vinna, eru mjög hraustir líkamlega, vilji fá að vinna áfram og þeir eiga þess kannski kost en þá kemur fram skerðing. Ergelsi er mjög skiljanlegt út af því.

En umræða um málefni aldraðra eins og hún var hér í þessum háa þingsal í gær mun aldrei skila neinum árangri. Við munum aldrei ná árangri með slíku hnútukasti og þeim illindum sem virðast einkenna þessar deilur. Þess vegna verðum við að reyna að hugsa þetta upp á nýtt, reyna að sjá hvort við náum ekki sátt því það er ómögulegt að vera ósátt út af þessum hlutum.

Við erum þó búin að þreyja þorrann og góuna í 30 ár, við vissum það milli 1970 og 1980 að mismunurinn væri svona mikill. Við vissum að það yrði ekki fyrr en rétt um 2015 eða svo sem hinir frjálsu lífeyrissjóðir yrðu í stakk búnir til að standa undir eftirlaunakröfum einstaklinganna. Nú eigum við þó ekki nema u.þ.b. 15 ár eftir og þá er ómögulegt að allt fari hér í hund og kött og eintóm rifrildi um þetta.

Það er rétt að tekjuskerðingarnar valda vandræðum. Ég veit að mjög margir einstaklingar, sem hafa fjallað af mikilli kunnáttu og mikilli þekkingu og mikilli velvild og mikilli löngun til þess að koma ellilífeyrismálum Íslendinga í rétt og gott horf, hafa velt því fyrir sér hvort það mætti ekki finna alveg nýjar leiðir í þessu til að losa okkur undan þessum vandræðum. Og hugmyndir þeirra hafa staðið til þess að við reyndum þá að semja upp á nýtt við lífeyrissjóðina á þann veg að við gætum kannski jafnað stöðu þeirra til þess að borga eftirlaun. Við gætum samið um það á þeim grundvelli t.d. að ríkið tæki í auknum mæli til sín þessi erfiðu tilfelli, þ.e. örorkuna þegar fólk er að verða 100% eða 75% öryrkjar kannski á miðjum aldri, ég tala nú ekki um þá sem eru ,,invalid`` frá fæðingu, að ríkið tæki það meira á sínar herðar og minnkaði þannig áhættu lífeyrissjóðanna. Ég held að við verðum að fara svona ofan í þetta og reyna að finna sættir í þessu en hætta þeirri rosalegu, ofsalegu heift og miklu upphrópunum sem einkenna þessar deilur.

Ég skal halda áfram að ræða þessi viðkvæmu mál í næstu ræðu minni, herra forseti.