Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:07:49 (153)

2000-10-05 17:07:49# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:07]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt þetta sem ég sagði áðan. Það er mjög misjafnt hvernig tekjuaukinn hefur komið til sveitarfélaganna í landinu. Þar sem hefur orðið mikil fólksfækkun þar er neyðin mest. Þess vegna erum við að reyna að koma til móts við þær þarfir með fólksfækkunarþjónustuframlögunum. En þau sveitarfélög sem hafa notið mestrar þenslu, mestrar fólksfjölgunar o.s.frv., hafa í samræmi við ríkið fengið líka auknar tekjur.

Gagnvart vandamáli hinna félagslegu íbúða, sem hv. þm. kom inn á, þá get ég sagt honum að ég hef mjög ákveðnar skoðanir á því. Í lögum um félagslegar íbúðir er kveðið svo á um að bannað sé að afskrifa. Ég lít á svona lagaákvæði í markaðssamfélagi eins okkar sem fáránlegan hlut, að einhver ætli að taka eitthvað út úr samfélaginu og segja: Þetta má ekki afskrifa, að það sé einhver Pétur eða Páll sem vill setja inn í lögin að ekki megi afskrifa þessa eign. Auðvitað verður að afskrifa eignir eftir því sem markaðurinn segir burt séð frá því hver á þær. Þetta er fáránlegt og á að afnema þetta strax úr lögum. Það getur aldrei farið öðruvísi en að ef eign fellur í verði tapar veðhafinn. Það gerist bara svona í þessum heimi. Hann er bara ekki flóknari en það. Þannig tapa þeir sem eiga, aldrei aðrir.