Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:29:24 (160)

2000-10-05 17:29:24# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er með síðasta ræðumann eins og fleiri sem tekið hafa til máls fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að þeir þrá að geta sýnt fram á einhvern ágreining milli stjórnarflokkanna eða einstakra ráðherra. Þeir þykjast geta afhjúpað djúpstæðan ágreining sem upp sé kominn og birtist í frv.

Nýjasta dæmið um þetta er það sem hv. þm. var að segja í sambandi við húsnæðismálin og leiguíbúðaþáttinn sérstaklega. Þannig vill til að umrætt bráðabirgðaákvæði er að renna sitt skeið núna í lok ársins 2000. Við því þarf að bregðast. Það bráðabirgðaákvæði fellur úr gildi. Við því er brugðist með þeim hætti sem lýst er í frv., settar eru 50 millj. eins og þingmaðurinn gat um í þennan málaflokk til þess að veita stofnstyrki að því er varðar leiguíbúðirnar.

[17:30]

Hins vegar er því við að bæta að sérstök nefnd hefur verið starfandi á vegum félmrh., m.a. með minni aðild, þar sem hefur verið reynt að komast að niðurstöðu um það hvernig eigi að hafa þetta kerfi í framtíðinni og kemur auðvitað ýmislegt til greina. Það kemur til greina að vera með stofnkostnaðarstyrki af því tagi sem um er að ræða þó að þetta sé lág upphæð. Það kemur líka til greina að fara þá leið að hækka húsaleigubæturnar til samræmis við aukinn vaxtakostnað. Eitt og annað af þessu tagi kemur til greina.

En sú breyting sem hér var ráðgerð að því er varðar vextina var löngu fyrirséð og lá fyrir í lögunum sem voru samþykkt fyrir nokkrum árum.

Ég mun svara síðara atriðinu í síðara andsvari mínu.