Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:44:34 (254)

2000-10-10 13:44:34# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er ótækt að almenningssamgöngur til einstakra staða á landinu geti lagst af nánast fyrirvaralaust eins og hefur sýnt sig með flugið til Siglufjarðar og Húsavíkur og fyrr í haust með áætlunarflug frá Akureyri til Vestfjarða og Norðaustur- og Austurlands. Það var óheillaspor þegar sérleyfi í flugi voru afnumin og flugfélögin fengu skotleyfi hvert á annað í glórulausri samkeppni sem gat ekki endað með öðru en því að flestir innlendir flugaðilar liggja blóðlausir í valnum og hver flugleiðin af annarri leggst af án þess að aðrar almenningssamgöngur betri leysi þær af hólmi.

Betri vegir bæta um en þeir brúa ekki allar fjarlægðir og ekki eiga allir einkabíl. Auðvitað þarf að móta heildarstefnu í almenningssamgöngum milli landshluta og innan héraða þar sem litið er samtímis til áætlunarferða með flugi, með bílum, með ferjum og beita ríkisstuðningi þar sem það reynist nauðsynlegt eins og til annarrar mikilvægrar samfélagsþjónustu. En þetta á allt að gera áður en komið er í óefni, áður en samgöngurnar eru lagðar af. Ég spyr því: Ætlar ríkisstjórnin að láta almenningssamgöngur út um land leggjast af án þess að aðhafast neitt því þetta sem hér var minnst á af hæstv. ráðherra er bara mjög takmörkuð lausn á því sem við blasir? Verður það látið viðgangast að flug leggist af til Húsavíkur? Hvað verður þegar röðin kemur að Höfn í Hornafirði, að Sauðárkróki, að Patreksfirði, að Bíldudal?

Herra forseti. Þetta skipulagsleysi og skortur á stefnu í samgöngumálum í landinu er ótækt.