Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:48:28 (256)

2000-10-10 13:48:28# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frekari skattlagning á flug á næsta ári mun vitanlega flýta þeirri þróun að áætlunarstöðum fækki. Auðvitað er alls ekki æskilegt að ríkið ýti undir það að flug leggist af. Hitt er ljóst að með betri akstursleiðum utan af landi hættir flugið að vera samkeppnisfært. Fjölskyldur taka fremur þann kost að keyra í þrjá klukkutíma. Það var ekki tekin ákvörðun um að leggja af flug frá Stykkishólmi eða frá Blönduósi á sínum tíma. Það lagðist bara af. Það gerðist með batnandi vegakerfi.

Það er hætt við því að í framtíðinni verði aðeins flogið til fjögurra til fimm stærstu staða á landinu. Það breytir ekki því að óeðlilegt er að ríkisvaldið ýti undir það að gera flugrekstur innan lands erfiðari en nú er, það er einfaldlega of dýrt fyrir fjölskyldufólk að fljúga ef það á þess kost að fara með einkabíl þegar ferðin tekur innan við þrjá klukkutíma. Þetta held ég að við verðum að horfast í augu við. Bætt samgöngukerfi mun breyta áherslum í samgöngum innan lands og við verðum að taka því. Hins vegar þarf auðvitað aðlögun og ríkisvaldið ætti ekki að flýta þeirri þróun að flug leggist af.