Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:44:57 (273)

2000-10-10 14:44:57# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. biður utanrrh. um að stilla sig og allt í lagi með það. Ég er alveg sallarólegur yfir öllu því sem hann er að segja.

[14:45]

En ég verð að segja það við hv. þm. að það er alvarlegur hlutur þegar einn hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, segir á Alþingi að utanrrh. landsins sé að grafa undan samskiptunum við Evrópusambandið. Áttar hv. þm. sig alveg á því hvað hann er að segja? Getur hann fært fyrir því rök að utanrrh. hafi í starfi sínu verið að grafa undan samskiptunum við Evrópusambandið? Ég hef að sjálfsögðu ekki verið að því. Ég hef verið að treysta þau samskipti. Ég og ráðuneyti mitt höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að treysta EES-samninginn og farið inn á ný svið eins og á svið öryggis- og varnarmála, Schengen-samstarfið og margt fleira gæti ég nefnt. Síðan kemur hv. þm. hér upp og segir að utanrrh. sé að grafa undan þessu samstarfi og telur það bara sjálfsagt að setja fram slíka fullyrðingu.

Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort ég væri til í að fara í þverpólitískt samstarf um þessi mál. Ég veit ekki betur en það sé þverpólitískt samstarf að starfa hér á Alþingi á sviði þessara mála. En að það eigi að koma í staðinn fyrir, eins og hann sagði, starf í mínum flokki. Hv. þm. sagði það, að í staðinn yrði farið í þverpólitískt samstarf. Ég tel að starfið á Alþingi sé að sjálfsögðu þverpólitískt samstarf. En til þess að það geti verið með einhverjum vitrænum hætti þurfa flokkar að búa sig undir það og vinna að málum sínum hver á sínum vettvangi eins og ég sé að hv. þm. hefur verið að gera.