Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:12:43 (300)

2000-10-10 16:12:43# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir hrósyrði í garð Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fyrir að hafa skýra stefnu á þessu sviði, þótt við söknum skýrrar stefnu frá ýmsum öðrum flokkum, hjá Framsóknarflokknum og Samfylkingunni einnig.

Mig langar að gera eitt atriði að umræðuefni í þessu stutta andsvari. Hv. þm. Ágúst Einarsson telur að Evrópusambandið hafi orðið til þess að styrkja friðinn. Sem betur fer höfum við búið við góðan frið í Evrópu frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari að undanteknu því sem er að gerast á Balkanskaga og hefur verið að gerast þar á síðustu árum. Ég þakka þetta hins vegar ekki Evrópusambandinu heldur öðrum þáttum sem ég get ekki fjölyrt um hér nú. En óttast hann ekki þær mótsagnir sem virðast fylgja því annars vegar að fylgt sé mjög miðstýrðri, einsleitri efnahags- og peningastefnu sem sett er undir vald eins miðstýrðs seðlabanka með refsivald gagnvart þeim sem brjóta frá þessari stefnu? Sér hann ekki mótsögn í þessu annars vegar og hins vegar í hinu að verið er að stækka Evrópusambandið, hleypa þar inn ríkjum sem búa við allt annan efnahag en gerist um vestanverða Evrópu? Það eru margir sem óttast að þarna sé komin af stað þróun sem ekki sé til þess fallin að styrkja friðinn, heldur hugsanlega að skapa spennu, gagnstætt því sem að er stefnt.