Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 17:09:42 (318)

2000-10-10 17:09:42# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[17:09]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það koma alltaf nýjar og nýjar víddir inn í þessa umræðu í hvert skipti sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kemur í pontu. Nú spyr hv. þm. hvort við höfum rætt við alla mögulega hugsanlega samningsaðila Íslands fyrir fram áður en við voguðumst að leggja fram þessa tillögu hér um almenna stefnumótun í samskiptum Íslands við önnur ríki. Svarið er nei. Það er best að það sé alveg á hreinu að þingmenn eða erindrekar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fóru ekki um lönd og álfur og áttu samningaviðræur við 20--30 ríki um það hvort við gætum alveg örugglega gengið frá svona samningum ef það skyldi nú einhvern tíma inni í framtíðinni verða uppi á borðinu.

Ég spyr hv. þm. á móti: Er hann vanur því að undirbúningur þingmála sé með þeim hætti hér yfirleitt að vinnan sé öll unnin fyrir fram sem mælt er fyrir um í tillögu að fara út í?

Ég vek athygli þingmanna í allri vinsemd á orðalagi tillögunnar hvað varðar þennan tiltekna þátt. Þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.``

Þarna er með öðrum orðum ákveðin leiðsögn, ákveðin almenn stefnumótun sem vísar til framtíðar og vísar til ákveðins ferlis, ef og þegar og við þær aðstæður sem uppi kynnu að verða þegar til breytinga kæmi í þessum efnum. Hér fyrr í umræðunni var vitnað til hluta eins og þeirra ef t.d. Norðmenn gengju í Evrópusambandið og stofnanaþáttur EES-samningsins væri þá í uppnámi. Þá fæli stefnumótun af þessu tagi í sér almenna leiðsögn um það hvernig við mundum þá vilja reyna að þróa þessi samskipti. Það er það sem þarna stendur.

Einn gallinn við að eiga rökræður og skoðanaskipti við hv. þm. Sighvat Björgvinsson er að hann er stundum ekki alveg nógu nákvæmur í orðalagi, einnig þegar hann hefur eftir mönnum.