Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:16:17 (446)

2000-10-12 12:16:17# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur staðið mikil umræða um það í þinginu hvort Íslendingar eigi að hefja hvalveiðar eða ekki. Því verð ég að segja að ég sakna þess þegar ég horfi yfir salinn að hér sé enginn stjórnarliði fyrir utan einn þingmann Sjálfstfl. Þeim fjölgar að vísu núna og það er gott. En mér finnst viðurhlutamikið að menn sem hafa árum saman barist fyrir því að hvalveiðar verði teknar upp hér við land, flutt um það innblásnar ræður og mörg þingmál, skuli ekki vera í salnum til að ræða um þetta mál.

Ég tek auðvitað gilt, herra forseti, að afsakanir skuli vera fyrir því að hæstv. utanrrh. sé ekki viðstaddur en mér hefði þótt miklu betra þegar við ræðum þetta mál, sem hann hefur komið að innan ráðuneytis síns og flokkur hans átt mikla aðild að í umræðum um þetta mál, að formaður Framsfl. og utanrrh. væri viðstaddur umræðuna.

Herra forseti. Hvert er grundvallaratriðið sem menn hljóta að leggja til viðmiðunar þegar þeir velta fyrir sér hvort eigi að veiða hval? Það eru þau atriði sem liggja til grundvallar sjálfbærri þróun. Stofna, og það gildir um hvalastofna og aðra stofna sem eru sjálfbærir, sem standa undir sjálfum sér, á að sjálfsögðu að nýta. Þá stofna sem eru ekki í útrýmingarhættu á að nýta og það er sú afstaða sem við höfum fylgt í Samfylkingunni og það er sú afstaða sem ég fylgdi á sínum tíma sem umhvrh. og barðist fyrir því á ýmsum leikvöngum þar sem þetta mál kom til umræðu að yrði grundvöllur t.d. þeirrar afstöðu sem Bandaríkjamenn höfðu í því máli. Eins og menn muna eftir var afstaða Bandaríkjamanna ákaflega misvísandi.

Í fyrsta lagi sögðu Bandaríkjamenn að þeir væru á móti hvalveiðum en hins vegar sögðu þeir líka að þeir væru fylgjandi sjálfbærri þróun. Ég held, herra forseti, að það hafi verið ákaflega mikil mistök þegar Íslendingar gengu á sínum tíma úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og höfðu frumkvæði að því með öðrum þjóðum að stofna NAMMCO. Auðvitað átti að stofna NAMMCO fyrst og fremst til höfuðs Alþjóðahvalveiðiráðinu og menn gerðu sér ákveðnar vonir um að hægt væri að beita þeim samtökum til að ryðja brautina fyrir þeirri afstöðu sem Ísland fylgdi varðandi þetta mál. Það leit út um tíma sem þarna mundu koma fleiri þjóðir. Það leit út sem til að mynda Norðmenn, sem hafa verið atkvæðamiklir á sviði hvalveiða, mundu fylgja okkur inn í NAMMCO. Raunar var það svo eins og ég skildi það mál, og stóð nú í návígi við þá sem tóku þessar ákvarðanir á sínum tíma, að þá fylgdu ákaflega stífar hvatningar frá Norðmönnum við stofnun þessara samtaka en það lét hins vegar á sér standa að þeir sinntu málinu og sýndu í verki hvaða stuðning þeir vildu veita þessum nýju samtökum.

Nú er það svo að Alþjóðahvalveiðiráðið er í dag helsti vettvangur umræðu um hvalveiðar. Baráttan fyrir því að taka upp hvalveiðar á vísindalegum grunni fer fyrst og fremst fram innan hvalveiðiráðsins. Hvar ætlar þá þjóð að láta rödd sína heyrast sem vill taka upp hvalveiðar? Hún hlýtur að hasla sér völl á þessum vettvangi. Hún hlýtur að gerast aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem talaði áðan, lýsti í reynd stuðningi við tillöguna. Efnislega var niðurstaða hans þessi: Ég vil að hvalveiðar verði teknar upp. Innan Alþjóðahvalveiðiráðsins taka menn ákvarðanir um það. Ef við þurfum að ganga í ráðið til að taka upp veiðarnar er ég fylgjandi því. Herra forseti. Þetta hlýtur að vera afstaða flestra þeirra þingmanna sem hafa rætt um þessi mál á undanförnum árum.

Fjölmargir þingmenn sem eru í stjórnarliðinu hafa á síðustu árum mælst til þess að stjórnvöld taki upp hvalveiðar. Hér hafa menn flutt tillögur og hér hafa verið samþykktar tillögur. Hins vegar blasir við eins og málin hafa þróast að það verður ákaflega umhendis fyrir okkur að hefja slíkar veiðar og selja afurðirnar nema við séum aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Því er niðurstaða mín, herra forseti, að í þessum sal hlýtur að liggja víðtækur stuðningur við þá tillögu sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir fer fyrir ásamt ýmsum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar.

Rökin fyrir því að standa utan ráðsins eru ákaflega veik. Allar ákvarðanir sem eru teknar hljóta að byggja eins og málum er háttað að verulegu leyti á þeim ákvörðunum og þeirri umræðu sem fer fram innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Það er fyrirsjáanlegt að á næstu árum verður það helsti vettvangurinn fyrir umræðu um hvalveiðar og þar liggur baráttan, herra forseti.

Nú er það svo að á fyrri árum þegar menn voru að ræða með eða móti hvalveiðum var ekki alveg ljóst hvort hvalastofnar hér við land væru í útrýmingarhættu eða ekki. Skortur á upplýsingum leiddi til þess að sú skoðun varð útbreidd að hvalastofnarnir væru í vissri hættu og hægt var að færa rök að því að tilteknir hvalastofnar kynnu e.t.v. að standa nærri útrýmingarhættu. Nú er alveg ljóst eftir miklar rannsóknir sem hafa farið fram við Ísland og á úthafinu að líklega er enginn af þeim hvalastofnum sem voru áður taldir eiga á hættu að hrapa fyrir ætternisstapa í einhvers konar hættu. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi t.d. hnúfubakinn. Ég gæti nefnt steypireyðina. Ég er alls ekki að mælast til þess að teknar verði upp veiðar á þessum tveimur tegundum en ég held að þau gögn sem liggja fyrir í dag sýni fram á að þessar merkilegu tegundir úr hópi hvalanna séu ekki í útrýmingarhættu. Ég held að það liggi líka fyrir að tegundir á borð við hrefnu séu ákaflega vel staddar.

Það hefur komið fram hjá íslenskum vísindamönnum og starfsbræðrum þeirra í Noregi að stofninn sem er í Norður-Atlantshafinu telji líklega yfir 30 þúsund dýr. Menn telja líklegt að veiða megi 200--300 dýr án þess að stofninn verði í hættu en auðvitað sér hver maður að 30 þúsund dýra stofn bíður ekki mikinn skaða af því þó veidd séu 200 dýr á hverju ári.

Það er líka annað sem hefur gerst í úthafinu, herra forseti. Þegar ekki er lagst harkalega á stofnana með veiðum og þegar aðstæður eru góðar, sjórinn hlýr og mikil áta eins og hefur verið í hafinu á síðustu áratugum, þá lækkar kynþroskaaldur dýranna og viðkoman verður meiri. Þetta er parturinn af þessari miklu fjölgun þeirra í hafinu.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka að stefna Samfylkingarinnar gagnvart hvalveiðum byggist á grundvallaratriðum sjálfbærrar þróunar. Það á að nýta stofna sem standa undir sjálfum sér, það á að taka rentu auðlindarinnar án þess að ganga á höfuðstólinn. Þess vegna gildir það sama um hvalategundir og aðrar tegundir. Það á að veiða þær tegundir sem hægt er að ganga á án þess að setja viðkomandi tegund í hættu. Þetta er grundvallarafstaða okkar. Hins vegar er alveg ljóst að eins og mál hafa þróast er ákaflega erfitt að taka upp veiðar, hvað þá að selja afurðir nema við göngum í Alþjóðahvalveiðiráðið þar sem um þessi mál er vélað. Þess vegna er einboðið að þeir þingmenn, hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu, sem vilja að hvalveiðar verði teknar upp aftur, þeir hljóta að styðja tillögu Samfylkingarinnar.