Þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 12:38:13 (452)

2000-10-12 12:38:13# 126. lþ. 9.5 fundur 24. mál: #A þátttaka Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu# þál., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[12:38]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni að ferðamönnum sem fara í hvalaskoðun í Noregi fjölgar rétt eins og á Íslandi. Þetta er einfaldlega afskaplega vinsælt hjá ferðamönnum, að fara í hvalaskoðun. Í Noregi fer þetta saman að því leyti að hvalir eru bæði sýndir og veiddir á sama svæði en menn eru ekki að veiða og sýna sömu tegundir. Menn veiða hrefnu en sýna búrhval sem heldur sig úti í landgrunnskantinum. Menn sýna ekki hrefnuna einfaldlega vegna þess að hún sýnir sig ekki. Það er rétt sem hér kom fram áðan að það virðist svo að sé hrefna veidd þá hvekkist aðrar sem í grenndinni eru þannig að erfitt reynist að sýna þær. Þess vegna gat ég þessa hér í framsögu minni að þetta er auðvitað eitt af því sem við þyrftum að skoða í tengslum við að taka aftur upp hvalveiðar við Ísland. Hvernig ætlum við að láta þetta fara saman? Vissulega viljum við fá þær tekjur áfram og halda áfram opnum þeim möguleikum sem gefist hafa í ferðaþjónustu með sýningu á hvölum.

Ég veit svo sem að það þýðir lítt að ræða þetta hér í andsvörum og við erum kannski komin aðeins út fyrir þá umræðu sem hér stóð um aðild okkar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. En það er ástæða til þess, eins og hér hefur komið fram og ég hef ítrekað, að betur verði kannað hvernig við ætlum að láta þessa hluti fara saman. Hvort tveggja er okkur mikilvægt.