Almannatryggingar

Fimmtudaginn 12. október 2000, kl. 17:15:44 (514)

2000-10-12 17:15:44# 126. lþ. 9.7 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 126. lþ.

[17:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég er hlynntur tekjutengingu á ýmsum sviðum. Ég vil t.d. taka tillit til fjölskylduaðstæðna einstæðra foreldra, barna þeirra og aðstæðna að ýmsu leyti. Ég legg áherslu á að litið sé á þær tekjur sem öryrkinn fær að lágmarki úr almannatryggingakerfinu, þ.e. tekjutryggingin sem rætt er um í þessu frv. --- ég vildi hafa þær heldur meiri --- sem sjálfstæðan rétt einstaklingsins. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal --- ég veit ekki hvort hann á eftir að koma hér í ræðu um þetta mál aftur --- mundi vilja taka á sama hátt á atvinnuleysisbótum, skerða t.d. atvinnuleysisbætur hjá einstaklingi í sambúð eða giftum. Við leggjum til að litið sé á öryrkja á sama hátt og litið er á atvinnulausan einstakling, að honum beri að hafa þennan rétt sem einstaklingur. Hins vegar vil ég ítreka það að mér finnst þær upphæðir sem við erum að tala um hér allt of lágar. Mér finnst þetta allt of lágar tekjur. Fólk getur ekki framfleytt sér á þessum tekjum og ekki notið lífsins á þann hátt sem ég held að við viljum flest að allir Íslendingar geti.