Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:32:09 (548)

2000-10-16 16:32:09# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Innlegg hv. þm. Jóhanns Ársælssonar í umræðuna var mjög athyglisvert og hann dró fram athyglisverðar tölur. Þó eru kannski athyglisverðari þær ályktanir sem hv. þm. dró af tölunum í þá veru eins og hann sagði sjálfur að menn hefðu skýrt þær niðurstöður sem hann var að nefna með því að kerfið hefði ekki verið farið að virka fyrr en eftir 1990 eða 1991 þegar það reyndar tók gildi. Ég held að nákvæmlega sú röksemd felist í því sem hv. þm. nefndi þegar hann var að tala um uppsjávarfiskinn, uppsjávarstofnana, að þeir hafa verið mun lengur í kvótakerfi en botnfiskurinn. Það er því ekkert óeðlilegt að menn dragi nákvæmlega þessa ályktun út frá þeim orðum sem hann hafði uppi um að uppsjávarstofnarnir stæðu betur en botnfiskstofnarnir.

Hins vegar verður líka að segja að á þessum árum sem hann var að bera saman hafa verið sveiflur í þessum stofnum. Sumir þeirra hafa farið bæði upp og niður á þessu tímabili þannig að það þarf kannski að skoða þann samanburð svolítið nákvæmar.

Hann kallaði á að umræða færi fram. Ég held að ekkert hafi vantað upp á að það hafi farið fram umræða að undanförnu. Það fór fram mikil umræða hjá auðlindanefndinni. Í þeirri nefnd átti flokkur hans þrjá fulltrúa. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að við ættum að byggja áfram á aflamarkskerfinu og sú nefnd var sett niður til þess að reyna ná fram sátt og meiri samstöðu um fiskveiðistjórnarkerfið og tillaga hennar er sú að við byggjum áfram á aflamarkskerfinu.