Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 16:37:19 (551)

2000-10-16 16:37:19# 126. lþ. 10.6 fundur 22. mál: #A stjórn fiskveiða# (sólarlagsákvæði, sóknardagar, veiðar smábáta o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[16:37]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sé út af fyrir sig allt rétt og ég efast ekki um að vísindamenn okkar eru tilbúnir í þá umræðu. Hún þyrfti að verða mikil því að það er margt sem menn þurfa að fara þar yfir. Ýmislegt bendir til þess að margt sem á undanförnum árum hefur verið trúað um það hvernig veiðistjórnunin virki hefur ekki reynst rétt, þ.e. nákvæmni þeirra spáa sem gerðar hafa verið. Að minnst kosti er hægt að draga mjög í efa að hún sé nægilega góð. Í Noregi hafa t.d. komið fram efasemdir um að þar hafi verið nokkur glóra í spánum um hvað mætti veiða af fiskstofnum þar. Það kom fram um daginn að þar hefði verið skotið undan vigt um það bil 15% af þeim afla sem hefur verið landað. Fiskifræðingar þar sögðu að ef það væri rétt þá væri öll veiðistjórn og allar tillögur þeirra út í bláinn vegna þess að skekkjumörkin hjá þeim hvað fiskstofnana varðaði væru yfir 20% og ef 15% bættust síðan ofan á það sem hefði verið lagt til að væri veitt þá væri þar með öll glóra horfin úr tillögum þeirra.

Ég veit auðvitað ekki hve mikið er farið fram yfir hér. Menn hafa tekið þá umræðu öðru hverju og enginn hefur getað spáð um það. Ég vonast til þess að menn nái saman um að reyna að komast að því með einhverjum vitrænum hætti. Við höfum lagt fram tillögu um það hvernig væri rétt að gera það, þ.e. með því að leyfa löndun utan kvóta í tvö ár til að sjá hvað við erum að gera á miðunum og eftir það gætum við tekið ákvörðun á grundvelli upplýsinga sem skiptu máli og væru nokkuð áreiðanlegar um það hve miklum fiski er hent í sjóinn. Þetta er atriði sem ég held að menn ættu að taka vel inn í umræðuna í vetur og þessi tillaga mun birtast hér innan skamms.