Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 18:50:40 (596)

2000-10-16 18:50:40# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[18:50]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Sú umræða sem farið hefur fram núna síðustu mínúturnar gerir það að verkum að mig brestur þolinmæði til að sitja á stólnum mínum. Ég tel mig nauðbeygðan að koma hér upp. (Gripið fram í.) Ég get lítið gert að því þó að fólk hafi talað sig í hel. Það er þeirra vandamál.

Ef ég skil rétt áherslurnar í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar þá hlýt ég að spyrja hvort textinn í skýrslu auðlindanefndar eins og hann lítur út sé samþykktur af samfylkingarmönnunum, þá sérstaklega þeim þremur sem áttu sæti í þessari nefnd. Jafnframt spyr ég hvort það sé aðalmarkmið alls þessa máls að frjálsa framsalinu skuli kyngt og kvótakerfi komið yfir smábátana, að viðhalda því sem ég hef oft kallað eyðibyggðastefnu úr þessum ræðustól til þess eingöngu að ná fram gjaldtöku gjaldtökunnar vegna. Er það aðalmarkmið þessa máls, eins og ég hef skilið það, að gjaldtakan sé númer eitt, tvö og þrjú og eru nefndarmenn Samfylkingarinnar sem voru í auðlindanefnd tilbúnir að gangast við því að textinn í skýrslu auðlindanefndar sé þeirra?