Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 16. október 2000, kl. 19:06:17 (604)

2000-10-16 19:06:17# 126. lþ. 10.8 fundur 25. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 126. lþ.

[19:06]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að ég og hv. þm. höfum mismunandi skilning á orðunum ,,frelsi til fiskveiða``. Ég hef alltaf skilið frjálsar fiskveiðar þannig að þá væru menn ekki með neinar takmarkanir, hvorki sóknarstýrðar né aðrar. Um leið og menn eru farnir að stýra sókn eða athöfnum manna eða flotaeininga eða byggðarlaga tel ég að menn séu búnir að taka upp einhvers konar fiskveiðistjórn. Okkur greinir greinilega á um þessa grundvallarskoðun.

Hins vegar vil ég segja það fyrir mína hönd og flokks míns að við erum tilbúnir til að finna einhvern flöt til að komast út úr því ófremdarástandi sem mér finnst vera í fiskveiðimálunum og stjórn þeirra um þessar mundir. Þá vitna ég enn og aftur til þeirra fjölmörgu byggðarlaga sem hafa farið algjörlega halloka varðandi þetta kerfi þar sem atvinna fólks hefur beinlínis verið seld frá þeim.

Ég skrifa ekki upp á það og það verður þá svo að vera að Frjálslyndi flokkurinn sé ekki hæfur til sátta. Ég ætla ekki að skrifa upp á óbreytt ástand. (Gripið fram í.) Það verður ekki sátt í landinu um þetta framhald kvótabrasksins sem verið hefur við lýði. Það verður ekki sátt um það. Þið skuluð bara gleyma því.