Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 15:03:39 (641)

2000-10-17 15:03:39# 126. lþ. 11.6 fundur 75. mál: #A landmælingar og kortagerð# (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[15:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Við leiðum þetta ekki til lykta hér. Enda sagði ég það áðan að þessi einstaka tillaga ræður auðvitað ekki úrslitum um framtíðarskipan þessara mála. Hún er merki um það að enn er haldið áfram á sömu braut. Það er kjarni þessa máls.

Ég nefndi það í lok síðasta andsvars míns að meðal stjórnarmanna í þessari litlu stofnun væri bæjarstjórinn á Akranesi. Ég endurtek að ég er alveg handviss um það, þekkjandi þann mann prýðilega, að hann hefur verið í lykilhlutverki við að festa þessa stofnun í sessi sökum staðarþekkingar sinnar og víðtækrar annarrar þekkingar þannig að ekki hefur hann nú mikið þvælst fyrir, held ég, við uppbyggingu þessarar stofnunar. Það getur því ekki verið ástæða þess að mönnum þyki mjög mikilvægt að leggja niður þessa stjórn. En allt að einu. Það verða lokaorð mín að sinni um þessi mál.

Ég minni á að ég held að öllum stofnunum sé hollt að fleiri en einn eða fleiri en tveir komi að. Ég vek líka athygli á því að í mörgum tilfellum eiga starfsmenn viðkomandi stofnunar þá kannski möguleika á því að heyra í stjórnarmönnum ef viðkomandi forstjóri er þeim óvilhallur eða vill ekki leggja við hlustir. Ýmsa þætti þessa máls er vert að gaumgæfa í breiðu samhengi.