Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 17. október 2000, kl. 16:08:36 (659)

2000-10-17 16:08:36# 126. lþ. 11.9 fundur 20. mál: #A meðferð opinberra mála# (skýrslutaka af börnum) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 126. lþ.

[16:08]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hvers vegna skyldi það vera svo í öllum löndum sem við berum okkur saman við, öllum löndum Vestur-Evrópu, sé það fyrirkomulag að lögreglan rannsaki mál í frumrannsókn? Það er sú leið sem þessi lönd hafa farið, öll nema Noregur. Það er vegna þess að það er talið eðlilegra og réttara að dómarar taki við málinu í aðalmeðferð en séu ekki með mál í frumrannsókn þar sem, eins og ég var að segja áðan, ekki nema 80% þessara mála koma fyrir dóminn. Af hverju ætti að hafa dómara við skýrslutöku í frumrannsókn þessara mála þegar einungis hluti þeirra kemur fyrir dóm? Þar fyrir utan getur barn þurft að koma tvívegis til skýrslutöku þrátt fyrir þessa nýju tilhögun.

Ég tel að ástæðan fyrir því að Barnahús var sett upp hafi verið að allt gæti verið á sama stað, þ.e. læknisskoðun, greining, meðferð og skýrslutaka, sem yfirleitt þarf að vera í öllum þessum málum. Varla fer læknisskoðun fram í þessari sérútbúnu aðstöðu. Allt þetta ætti að fara fram á sama staðnum og það var tilgangurinn með Barnahúsi. Við værum að hlífa 80% barna, þar sem ákæra liggur fyrir að hafi orðið fyrir kynferðisbroti, við því að fara í dómhúsið og fara ítrekað í skýrslutöku. Í þessu máli er misskilningur sem greinilega þarf að leiðrétta. Auðvitað er það rangt, sem fram hefur komið, að frv. sé fyrst og fremst flutt til þess að Barnahús þurfi ekki að leggjast af. Það er ekki megintilgangurinn heldur að málið sé fært til fyrra horfs, þ.e. að skýrslutakan fari fram í Barnahúsi í frumrannsókn.