Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 13:51:03 (712)

2000-10-18 13:51:03# 126. lþ. 13.1 fundur 32. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá einum hv. þm. áðan að skipun í Hæstarétt hafi verið fyrir fram ákveðin. Ég held, virðulegi forseti, að flestir geri sér grein fyrir því að svo var. Ég held einmitt að þessi skipun dragi fram þann veikleika sem nú er á því fyrirkomulagi að skipa hæstaréttardómara, að fyrir fram skuli ákveðið hver fái embættið. Hins vegar vöktu eftirtekt hjá mér þær röksemdir í máli hæstv. dómsmrh. sem hún setti áðan fram fyrir því að skipa þann sem skipaður var.

Í fyrsta lagi er hefðbundið dekur við hátt próf, í öðru lagi framhaldsnám og í þriðja lagi stjórnsýsla. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, virðist stjórnsýsla í ráðuneytunum betri reynsla en dómarastarf sem allir aðrir sem sóttu um hafa gegnt um nokkuð langt skeið. Það þykja mér talsvert merk tíðindi að stjórnsýslustörf séu hærra metin en dómarastörf þegar kemur að því að meta hvern eigi að skipa í dómaraembætti.