Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 13:54:25 (715)

2000-10-18 13:54:25# 126. lþ. 13.1 fundur 32. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Svör hæstv. dómsmrh. við fyrirspurnum mínum voru bæði furðuleg og til vansa fyrir hæstv. dómsmrh. Það vantaði ekki lýsingarorðin þegar hæstv. dómsmrh. hrósaði karlinum sem sótti um starfið. Hann hafði yfirburði umfram konurnar og hann var langhæfastur. Svo tók auðvitað steininn úr og verður ráðherra til ævarandi skammar að hafa sagt úr ræðustól að ekki sé viðeigandi að hvetja konur til að sækja um eitt virðulegasta embætti landsins. Hún vílar ekki fyrir sér að brjóta þar eigin jafnréttisáætlun sem kveður á um það að ráðuneytið hafi sett sér að fylgja þeirri stefnu að orða starfslýsingar með þeim hætti að fram komi hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um viðkomandi störf. Hæstv. ráðherra fylgdi ekki þessari áætlun, sem var samþykkt hér á Alþingi, af því að þetta embætti er svo virðulegt að það hæfir ekki konum. Er það það sem hæstv. dómsmrh. er að segja?

Það er alveg ljóst að ráðherrann hefur brotið hér jafnréttislög. Ég skora á Jafnréttisráð að hafa frumkvæði að því að láta reyna á þetta mál fyrir dómstólunum. Það er alveg ljóst að jafnréttislög eru brotin, framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar ekki fylgt, málsmeðferð sem Hæstiréttur hefur farið eftir við að túlka jafnréttislögin er heldur ekki fylgt. Alþjóðlegar samþykktir eru hunsaðar og ráðherra stendur hér keik og hrósar karli fyrir að hafa unnið í stjórnsýslunni en gerir lítið með þær þrjár konur sem allar hafa reynslu af dómarastörfum. (Gripið fram í: Enda eru bara 25 ár frá kvennafrídeginum.) Kvennafrídagurinn á næsta leiti og þetta er ráðherranum virkilega til skammar.

Ég vorkenni hæstv. ráðherra að standa í þessum sporum, að hafa farið þessa leið og láta eins og hún hefur gert í ræðustól. Mér finnst þau ummæli hennar sem hún viðhafði hér verðskulda það að sérstaklega verði rætt um jafnréttismálin að viðstöddum hæstv. dómsmrh.