Fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 14:58:58 (742)

2000-10-18 14:58:58# 126. lþ. 13.5 fundur 94. mál: #A fjárveitingar til mennta- og þróunarstofnana landbúnaðarins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna og þær undirtektir sem hv. þm. hafa komið með um þetta mál. Sömuleiðis þakka ég hæstv. landbrh. fyrir undirtektirnar og að hann skuli lýsa einlægum vilja sínum til að berjast áfram fyrir málinu og hafi nú falið það fjárln. og þinginu.

Að sjálfsögðu munum við í fjárln. gera eins og við getum fyrir þessar stofnanir og beita okkur líka áfram í þinginu. Eins og hefur komið fram er það vilji þingmanna að staðið sé á bak við þessar stofnanir. Þetta eru sterkustu dreifbýlisstofnanirnar sem við eigum. Þetta eru sterkustu vísindasamfélög sem eru úti í hinum dreifðu byggðum landsins. Byggðastefna sem tekur ekki mark á þeim raunveruleika er hjóm. Það fer kannski vel á því, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn leggi byggðastefnu sína inn í Alþingi og þar verði tekið á henni vegna þess að hún hefur sjálf ekki myndugleika til þess.

Herra forseti. Ég treysti því að hæstv. landbrh. styðji við fjárln. og Alþingi af sínum dug og dugnaði komi þessum málum til betri vegar en þau hafa verið lögð fram í frv. til fjárlaga.