Skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum

Miðvikudaginn 18. október 2000, kl. 15:38:45 (762)

2000-10-18 15:38:45# 126. lþ. 13.6 fundur 36. mál: #A skattlagning söluhagnaðar af hlutabréfum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég lét þess getið að markmið breytinganna frá 1996 hafa ekki náðst nema að hluta til. Að einhverju leyti hefur þróunin orðið önnur en menn sáu fyrir. Út á það gengur umræðan.

En ég vil líka taka fram að ég tel að fólk, sem hagnýtir sér þessar frestunarheimildir, sé ekki neinir sérstakir sakamenn því lögin heimila þetta beinlínis og lögin gera ráð fyrir því. Það er því ekki neitt athugavert við það enda kemur í ljós að ekki eru nema nokkrir tugir einstaklinga, örfáir tugir einstaklinga, sem telja fram söluhagnað af hlutabréfum umfram það lágmark sem lögin gera ráð fyrir að skattleggja beri sem fjármagnstekjur. Það þýðir þá að þúsundir annarra aðila í þjóðfélaginu sem hafa selt hlutabréf hagnýta sér frestunarheimildina. Það segir heilmikla sögu.

Aftur á móti vildi ég segja það út af því frv. sem nefnt var áðan og kemur kannski til umræðu á morgun að ég tel ekki að sú leið sem þar er lögð til sé rétta svarið við því atriði sem við erum að tala hérna um, þessu vandamáli. Þar er reyndar líka blandað saman lögaðilum og einstaklingum með þeim hætti sem ég tel ekki að sé eðlilegt en ég kem kannski nánar að því þegar það frv. verður rætt.

Að öðru leyti ítreka ég það sem ég sagði áðan að við munum reyna að afla þessara upplýsinga sem um er beðið. Það er hins vegar ekkert einfalt mál vegna þess að hvergi er í gögnunum gefið upp hvað skattgreiðslurnar hefðu orðið miklar, það þarf að reyna að reikna það út. En það var spurt hve miklum skattgreiðslum hefði verið frestað. Kannski er auðveldara að tína til aðrar tölur í kringum þetta og slá á þessar stærðir en það munum við sem sagt reyna að gera þó það kosti eflaust mikla vinnu hjá embætti ríkisskattstjóra.