Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 10:37:09 (771)

2000-10-19 10:37:09# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[10:37]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Brottkast hefur sjálfsagt tíðkast á Íslandsmiðum frá því að menn fóru að gera út að marki. Menn hefur þó greint á um það frá því að kvótakerfið kom til sögunnar hvort og hve mikið brottkast hafi aukist við tilkomu þess. Hæstv. sjútvrh. hefur oft látið hafa það eftir sér að hann telji kvótakerfið ekki eiga neinn þátt í því að brottkast hafi aukist. Þó hefur honum orðið á að benda á þær ástæður brottkasts, og nú síðast í ræðu sinni áðan, sem eru til komnar eftir að kvótakerfi var komið á, þ.e. að verðmunur á fiski sé ástæða fyrir brottkastinu.

Það bættust nefnilega við ýmis tilefni fyrir menn til að henda fiski í sjóinn við tilkomu kvótakerfisins. Það þýðir ekki annað en horfast í augu við það, enda hafði það þau áhrif strax eftir að kvótakerfið kom til sögunnar að úr lönduðum afla hurfu vissar fisktegundir. Menn urðu t.d. mjög undrandi á því hve gæði netafisks urðu allt í einu miklu meiri en áður og leituðu skýringa á því. Sumir héldu því fram að það væri vegna þess að menn sinntu netunum betur eftir tilkomu kvótakerfisins en aðrir töldu að ástæðan fyrir þessu væri einfaldari, sem sagt að minna fengist fyrir þann fisk, auk þess sem hann teldi að fullu í kvótanum. Auðvitað er það aðalástæðan fyrir þessu. Skemmdur fiskur hætti að koma að landi en hafði þó komið að landi áður. Það sem þó er kannski skelfilegast við þetta er að það eru sannanir fyrir því, a.m.k. tel ég það fullkomlega sannað, að menn eru að henda fiski í sjóinn vegna þess að þeir fá lægra verð fyrir hann og vegna þess að hann telur að fullu í kvóta. Sé það borið saman að landa honum eða fleygja honum í sjóinn og halda síðan áfram að veiða og fá verðmeiri fisk upp í kvótann reynist óhagstætt að koma með fiskinn að landi svo menn freistast til að fleygja honum í sjóinn.

Í sumar fór fram um þetta mjög þörf umræða. Menn gengu fram og voru tilbúnir að segja frá því að þeir hefðu tekið þátt í þessu sjálfir. Enginn þarf að efast um að þar sögðu menn satt. Ástæðan fyrir því að þessi umræða kom ekki upp fyrr var auðvitað sú að í lögum eru refsiákvæði sem taka á þessu, lögin eru í gildi þó ekki hafi þeim verið framfylgt mjög. Ég kem betur að því á eftir. Þetta er auðvitað ólöglegt og menn skammast sín líka fyrir að ganga svona um auðlindina. En þessi umræða er fyrst og fremst tilkomin vegna þess að menn eru ekki tilbúnir að halda þessum spjöllum áfram og vilja vinna gegn þeirri ósvinnu sem felst í að henda fiski í sjóinn.

Af ýmsum yfirlýsingum hæstv. ráðherra var ljóst að hann var afar órólegur yfir þeirri umræðu sem var í gangi í sumar. Honum leiddist hún greinilega og henni lauk mjög skyndilega. Það er athugunaefni hvernig henni lauk. Henni lauk með því að hæstv. ráðherra og forstöðumenn Fiskistofu urðu sammála um það á opinberum vettvangi að nú ættu lögreglan og sýslumenn að koma til og taka skýrslur af þeim sem meðgengju opinberlega að þeir hefðu hent fiski í sjóinn. Ætlunin var að fylgja málinu eftir á grundvelli þeirra laga sem brotin hefðu verið. Þar með hættu menn að mæta í fjölmiðla og greina frá því að þeir hefðu tekið þátt í að henda fiski í sjóinn. Öllum er ljóst sem hafa fylgst með þessum málum að menn hafa ekki verið dæmdir fyrir að fleygja fiski í sjóinn fram að þessu, einfaldlega vegna þess að lögin og úrræðin til þess að taka á málinu hafa aldrei verið nothæf.

En þessi umræða hafði þó sín áhrif. Hún hafði þau áhrif að hæstv. ráðherra er mættur til leiks með tillögur sínar um hvernig við eigum að koma í veg fyrir þetta. Hann lýsti því yfir að brottkast yrði ekki liðið á hans vakt. Það kom líka fram að hann hafði verið til sjós og tekið þátt í að henda fiski í sjóinn þá, á öðrum stað. Hann ætlar hins vegar ekki að líða brottkast á sinni vakt og kemur með sínar hugmyndir um hvernig eigi að taka á málinu.

Það hefur áður komið fram að menn telja koma til greina að skoða að setja upp myndavélar um borð í fiskiskipunum og fylgjast með þessum glæpaverkum og dæma menn á þeim forsendum. En því miður eru menn enn haldnir sama misskilningi. Þeir halda að það muni einhvern tíma takast með lögregluaðgerðum, hótunum um refsingar og refsingum að fá menn til þess að ganga vel um fiskimið þrátt fyrir heimskulegar reglur. Núna er því fyrst og fremst bætt við möguleikum til refsingar en þeir eru ekki mjög merkilegir. Þeir ganga út á að menn eigi að borga áttunda daginn um borð og útgerðarmenn 1.700--1.800 fiskiskipa sem róa frá Íslandi óttast svo mikið að einhver einn af fimm eða tíu eftirlitsmönnum sem Fiskistofa hefur yfir að ráða muni vikum saman halda til um borð og þeir þurfi að borga uppihaldið.

Ég held að þessar ráðstafanir muni ekki vekja mikinn ótta hjá mönnum. Í grg. með frv. er talað um að þarna séu nýjar aðferðir við það að koma í veg fyrir brottkast. Það væri gott ef svo væri en því miður eru þessar aðferðir ekki nýjar. Auðvitað hafa starfsmenn Fiskistofu fylgst með fram að þessu og gert sér grein fyrir því að aflasamsetning landaðs afla væri stundum ekki mjög trúverðug. Það er ekkert nýtt í því að þeir fylgist þar með. Hið nýja í frv. er að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann vilji fjölga eftirlitsmönnum úr fimm í tíu og kannski fimmtán og beita þeirri ógn að setja eftirlitsmenn um borð í skipin til að fá menn til þess að fara að lögunum.

[10:45]

Fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra um það hve margir hafi verið dæmdir fram til þessa á grundvelli þessara laga er enn ósvarað. Ég hef ekki fengið svar við því. En ég held að ég hafi það sjálfur. Ég held að enginn hafi verið dæmdur. Ég held líka að enginn hafi verið ákærður. En það kann vel að vera að ég hafi rangt fyrir mér og það mun upplýsast þegar hæstv. ráðherra svarar þessari spurningu.

Ég hef líka þá skoðun að þó að menn bæti einni grein til viðbótar við refsikaflann í þessum lögum muni ekki verða mikil breyting á.

Ég hef haldið því fram og held því enn fram að allar aðferðir við það að meta brottkast afla sem menn hafa bent á fram að þessu að sé mjög vafasamt að það muni koma eitthvað út úr þeim athugunum sem hægt er að treysta. Hins vegar hefur ítrekað verið lögð fram tillaga á hv. Alþingi um það að kanna til hlítar hve mikið brottkastið væri með því að leyfa mönnum að landa afla utan kvóta. Ég held að menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi stutt þessa tillögu. Mér finnst full ástæða til þess að menn fari yfir tillöguna í sameiningu og velti því fyrir sér hvort ekki sé rétt að þessi athugun fari fram einu sinni þannig að menn geti byggt á skynsamlegri vitneskju um það hvað fer fram á miðunum við Ísland. Ég vona sannarlega að það verði niðurstaðan að Alþingi taki þá ákvörðun að fá þetta á hreint. Þó hv. þm. Gunnar Birgisson, sem er hinn besti maður, sé að láta fara fram skoðanakönnun á því á vegum Gallup hve miklu af fiski sé hent í sjóinn, þá hef ég ekki trú á því að út úr því komi einhver áreiðanleg vitneskja. (Gripið fram í.) Í fjölmiðlum hefur komið fram að skoðanakönnun af þessu tagi sé á leiðinni.

En við lögðum fram tillögu í fyrra og það er tillaga sem margir aðrir hafa átt hlut að að leggja fram, um að í tvö ár verði leyft að landa fiski utan kvóta. Ákveðið verði þannig verð á honum að menn muni ekki sækjast eftir því að veiða hann en það muni þó fást fyrir hann það verð að menn skaðist ekki á því að koma með hann að landi. Þannig verði í tvö ár farið mjög nákvæmlega yfir þessa hluti og menn sjái þá eftir þennan tíma með nákvæmni og vissu hvað er að gerast hér á miðunum.

Mér finnst satt að segja að við séum komnir á ótrúlega braut í því að ræða þessi mál. Þegar farið er að tala um að hafa flokka eftirlitsmanna um borð í atvinnutækjunum, hafa myndavélar til að fylgjast með hverri hreyfingu manna fer að rifjast upp bók sem oft er nefnd og í henni aðalpersónan Stóri bróðir. Ef menn ætla sér að stjórna fiskveiðum við Ísland með slíkum aðferðum og sjá engin önnur ráð en refsingar og viðbætur við refsikafla laga sem hafa ekki virkað fram að þessu þá tel ég að menn séu áfram á villigötum.

Flotinn er þó þetta stór, 1.600--1.700 skip sem leggja upp afla á ári hverju. Ég er hræddur um að hæstv. ráðherra verði að bæta þó nokkuð mörgum eftirlitsmönnum við. Auðvitað mun ekkert þýða að senda einhvers konar pappaútgáfu um borð í þessi skip til að fylgjast með. Því miður er ég á þeirri skoðun að það sé vægast sagt gagnslítið sem hæstv. ráðherra er að leggja til.

Ég vek athygli á því að með þessu frv. fylgir álit fjmrn. á því hvaða áhrif þetta hafi. Í áliti fjmrn. kemur fram að þar er talið að þetta hafi engin kostnaðarleg áhrif. Hvernig skyldi standa á því? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um þetta atriði.

Fjmrn. gerir ekki ráð fyrir því að þessi nýju lög hafi nein áhrif til aukins kostnaðar. Samt er það þannig að gert er ráð fyrir að fjölga eftirlitsmönnum og gert er ráð fyrir því að þeir séu sjö daga um borð á kostnað Fiskistofu. Hvergi kemur fram að það eigi að hækka einhver gjöld til að koma á móti þessum aukna kostnaði. En fjmrn. hefur ekki nokkra trú á því að þetta muni auka kostnað ríkissjóðs. Hvaðan koma þá þessir peningar eða er það kannski skoðun fjmrn. að það muni bara ekkert breytast?

Ef það gerist ekki er náttúrlega ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá að Fiskistofa muni halda áfram eftirlitinu með þeim hætti sem fram að þessu hefur verið og að áttundi dagurinn verði borgaður í einhverjum vissum tilfellum af útgerðinni. Þar af leiðandi mun Fiskistofa ekki standa straum af því en heildarumsvifin hafi þá ekkert aukist. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra útskýri nánar hvernig gert er ráð fyrir því að fjármagna þetta aukna eftirlit.

En ég ætla ekki að tala um þetta langt mál. Ég tel að það sé eitt af stærstu málum sjávarútvegsins núna að menn komist út úr umræðunni, menn finni leið til að meta þetta umfang þannig að menn viti nákvæmlega hvað er að gerast á Íslandsmiðum og geti stjórnað veiðum með tilliti til þess og hafi sem sagt til þess nægilega góðar forsendur. Það er ekkert að gerast í því efni með því sem sem hæstv. ráðherra er að leggja hér fram. Mér finnst hæstv. ráðherra koma með einhvers konar málamyndahugmyndir sem eiga að slá á umræðuna um brottkastið og eiga að segja mönnum að hann vilji vel í þessu, ég efast svo sem ekkert um að hann hefur góðan hug til að koma í veg fyrir brottkast. Ég hef hins vegar enga trú á því að þessar aðgerðir muni valda straumhvörfum hvað varðar brottkast fisks á Íslandsmiðum. Það þarf að taka á málunum með öðrum hætti, það þarf að víkja af refsilagabrautinni og það þarf að setja reglur sem eru þannig að mönnum sé ekki refsað fyrir að koma með þann fisk að landi sem kemur í veiðarfærin eins og nú er gert.