Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 11:26:51 (779)

2000-10-19 11:26:51# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða breytingu á lögum um umgengni um auðlindir sjávar. Frv. hæstv. sjútvrh. gengur út á að þar verði bætt inn ákveðnum ákvæðum sem eru svohljóðandi að meginstofni:

,,Telji Fiskistofa að afli tiltekins skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í skipið til að fylgjast sérstaklega með veiðum þess.``

Það er ekki svo að í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar sé ekki ákvæði um þetta að einhverju leyti en e.t.v. hefur ráðherra talið nauðsynlegt að styrkja þessi ákvæði.

Mig langar aðeins að vitna, með leyfi forseta, í þau lög sem við erum að fjalla um breytingu á. En í II. kafla þeirra, um veiðar, segir:

,,Skylt er að hirða og koma með að landi allan afla. Þó getur ráðherra ákveðið með reglugerð að sleppa skuli lifandi fiski sem er undir tiltekinni lengd og fæst í ákveðin veiðarfæri.``

Síðan segir:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að varpa fyrir borð afla sem sýktur er, selbitinn eða skemmdur á annan hátt sem ekki hefði verið unnt að komast hjá á þeim veiðum sem um er að ræða. Þá er heimilt að varpa fyrir borð fisktegundum sem ekki sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla, enda hafi viðkomandi tegund ekki verðgildi.

Einnig getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð innyflum, hausum og öðru sem til fellur við verkun eða vinnslu, enda verði þessi fiskúrgangur ekki nýttur með arðbærum hætti.``

[11:30]

Ég les þessa grein upp vegna þess að ég mun síðar vitna í skýrslu auðlindanefndar um brottkast, skýrslu, sem ég hef stundum nefnt að væri sums staðar full af texta sem ég hef kallað sýndarveruleika.

Mig langar einnig, með leyfi forseta, að lesa upp 1. mgr. 3. gr. þessara laga, sem kemur mjög nálægt þeim efnisatriðum sem ráðherra leggur til varðandi breytingu á 13. gr. laganna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fiskistofa skal fylgjast með aflasamsetningu fiskiskipa þannig að jafnan liggi fyrir sem gleggstar upplýsingar um aflasamsetningu skipa eftir stærð og gerð skips, gerð og búnaði veiðarfæra, veiðislóð og veiðitíma.``

Mér finnst þessi 3. gr. laganna koma ansi nálægt því sem stendur í 1. efnismgr. í frv. hæstv. sjútvrh. en ég ætla að lesa það aftur:

,,Telji Fiskistofa að afli tiltekins skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í skipið til að fylgjast sérstaklega með veiðum þess.``

Í rauninni má segja að í lögunum um umgengni um nytjastofna sjávar í 1. mgr. 3. gr. séu þessi ákvæði sem núna birtast að nýju sem viðbót við 13. gr. laganna, og kannski spurning hvernig Fiskistofa hefði þá fylgt eftir núgildandi lögum. Ég tel að 1. mgr. 3. gr. segi í raun og veru fyrir um það að Fiskistofu beri að fylgjast með aflasamsetningu skipa, kanna ástandið og bregðast við eftir því sem við á á hverjum tíma. Oft hefur það auðvitað verið rætt við forstöðumenn Fiskistofu að það þyrfti að skoða sérstaklega ef í ljós kæmi að afli einstakra fiskiskipa væri til muna öðruvísi á sambærilegri slóð við sambærilegar veiðar en annarra skipa. Í rauninni má segja að þessi heimild sé nú þegar í lögunum en e.t.v. finnst ráðherra í ljósi þess sem uppi hefur verið að nauðsynlegt sé að efla og styrkja ákvæði í lögunum um umgengni um nytjastofna sjávar eins og hann leggur til og vafalaust verða þessi rök öll vegin og metin í sjútvn.

Ég tel hins vegar að einn aðalgalli þessa máls sé, fyrir utan það að víkja hreinlega að grundvallaratriðum fiskveiðistjórnarinnar, að við erum með kvótakerfi sem gerir það að verkum að menn umgangast auðlindina með allt öðrum hætti en væri gert í öðrum kerfum að mínu áliti. Það er skoðun mín. Ég tel að sóknarkerfið sé besta kerfið til þess að tryggja það að allur afli komi að landi, rétt útfært sóknarkerfi sé í raun og veru eina kerfið sem tryggir það að afli komi að landi. Þá er ég ekki að segja að ekki sé hægt að breyta og bæta núverandi ástand. Ég tel að tillaga ráðherrans sé viðleitni í þá átt. Þó finnst mér að það vandamál sem við erum að tala um og greinin hefur aðallega snúið að, eins og kemur fram í greinargerðinni þar sem vikið er að brottkasti, taki varla til þess eða geti ekki komið í veg fyrir það vandamál sem fylgir núverandi kvótakerfi með frjálsu framsali og ofurverði varanlegra aflaheimilda og óeðlilega háu verði leiguheimilda á aflaheimildum sem hvort tveggja veldur auðvitað brottkasti samhliða því að almennt er viðurkennt að kvótakerfi hafa tilhneigingu til þess almennt að auka brottkast eða val úr þeim afla sem veiddur er í kvótakerfum. Ég held að menn þurfi ekki að rífast mjög mikið um það, þannig er það, og víðast viðurkennt að í kvótakerfinu er hvati sem leiðir til þess að menn velja úr aflanum og er það auðvitað til viðbótar við annan þann hvata sem kann að leiða til verðmyndunar fisks og annars slíks. Ég hef þó álitið að einn virkasti þáttur þess að menn komi og sækist eftir sem bestu hráefni séu rétt verðmyndunarkerfi og að uppboð fisks þar sem gæðin fengju virkilega að ráða væri besta tryggingin fyrir því að menn leituðust við að fiska og koma með að landi afla sem gæfi mest verðmæti. En þá má heldur ekki vera sá hvati sem er fyrir hendi, þ.e. að varpa aflanum fyrir borð. Hann er í raun og veru einmitt í 1. mgr. 14. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar. En 1. mgr. 14. gr. hljóðar svo:

,,Fiskistofa skal svipta hvert það skip leyfi til veiða í atvinnuskyni sem veitt hefur umfram aflaheimildir.``

Þetta er auðvitað agalegur galli í löggjöf sem ætlað er að efla umgengni um nytjastofna sjávar, ekki síst þegar við erum að stýra fiskveiðum eftir kvótakerfi eins og nú er og þar að auki kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum og framseljanlegum kvóta, sem ég hef leyft mér að kalla kvótabrask oftast nær og stýringu fiskveiðanna eins og hún gengur fyrir sig í dag eyðibyggðastefnu Íslands. Ég ætla að halda áfram að nota það orð þangað til menn geta sýnt mér fram á að kvótakerfið hafi ekki valdið byggðaröskun hér á landi.

Ég vil láta þess getið að verkefni veiðieftirlitsmanna Fiskistofu eru vissulega fjölmörg og snúa ekki eingöngu að því að eltast við það hvort einhverjum afla sé varpað fyrir borð eða ekki. Þau snúa að mörgu öðru eins og nýtingu veiðislóðarinnar, gerð og notkun veiðarfæra, hvernig aflasamsetning er í veiðarfæri og síðan með tilliti til þeirra viðmiðunarmarka sem við höfum varðandi það hversu mikið hlutfall smáfisks má vera í afla og veiðislóð hér á landi. Síðan er það lokun svæða sem er aðgerð sem við höfum notað mjög mikið samhliða kvótakerfinu, ég hef sagt það oft áður að ég tel að menn hafi notað þá aðferð, svæðalokanir og uppeldisskápa vegna þess að menn hafa ekki treyst kvótakerfinu til þess að byggja upp fiskstofna og reyndar er það reyndin, hin kalda staðreynd þess veruleika í því kerfi sem við höfum verið að nota undanfarin ár. Og breytir þá engu þó skrifað sé einhvers staðar í skýrslu auðlindanefndar sýndarveruleiki um það að kvótakerfið valdi ekki meira brottkasti en önnur kerfi, sóknarkerfi.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í eina setningu á bls. 52, með leyfi forseta, í skýrslu auðlindanefndar, en þar segir:

,,Í frjálsum fiskveiðum og sóknarkerfi gildir að eingöngu sá fiskur er hirtur sem hægt er að selja við hærra verði en sem nemur löndunarkostnaði að frádregnum kostnaðinum við sjálft brottkastið.``

Þetta er setning í skýrslu auðlindanefndar. Ég ætla að fá að endurtaka hana, herra forseti. Ég hef kallað þetta sýndarveruleika.

,,Í frjálsum fiskveiðum og sóknarkerfi gildir að eingöngu sá fiskur er hirtur sem hægt er að selja við hærra verði en sem nemur löndunarkostnaði að frádregnum kostnaðinum við sjálft brottkastið.``

Ég hefði nú haldið að þetta ætti ekkert sérstaklega við sóknarkerfið eða frjálsar fiskveiðar því að þetta er sá kostnaður sem fylgir öllum fiskveiðum alveg burt séð frá því hvort við erum með kvótakerfið eða eitthvað annað.

En það er margt fleira sem hægt væri að vitna í í skýrslu auðlindanefndarinnar. Þeir segja t.d. þegar vikið er að kvótanum, með leyfi forseta:

,,Í aflamarkskerfi verður aftur á móti að miða þennan nettókostnað við það verð sem hægt væri að leigja kvótann á.``

Þá virðist ekki vera lengur til staðar sá kostnaður sem á undan var talinn. Í aflamarkskerfi verður aftur á móti að miða þennan nettókostnað við það verð sem hægt væri að leigja kvótann á. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Í þeim tilvikum þar sem leiguverð kvótans er hærra en nettókostnaðurinn er því líklegt að aflamarkskerfið ýti undir brottkast.``

Þeir draga sem sagt þá ályktun að það geti verið, en á öðrum stöðum er dregið úr þessu eins og ég hef oft áður vikið að úr þessum ræðustól undanfarna daga og þar finnst m.a. þetta gullkorn, með leyfi forseta:

,,Fyrir fram er því örðugt að segja til um hvort brottkast á fiski við veiðarnar sé meira eða minna í aflamarkskerfi með varanlegum aflahlutdeildum en í frjálsum fiskveiðum eða veiðum þar sem annars konar stjórnun er beitt.`` Síðan kemur þetta loka gullkorn. ,,Hins vegar hvetur aflamarkskerfið til veiða á verðmætari fiski og eykur þannig gæði sjávarfangsins.`` Hins vegar er orðinu ,,landaðs`` sjávarfangs sleppt sem hefði auðvitað átt að vera þarna inni, --- þ.e. eykur þannig gæði landaðs sjávarfangs. Því er sleppt, enda skýrslan að stórum hluta skrifuð í þeim sýndarveruleika að kvótakerfi með frjálsu framsali sé forsenda þess að hér skuli vera hægt að búa áfram í landinu og ná einhverri arðsemi við fiskveiðar. Í lokakafla nefndarinnar segir samt sem áður, með leyfi forseta:

,,Að mati nefndarinnar er brýnt að brottkast íslenskra fiskiskipa verði kannað miklu rækilegar en gert hefur verið til þessa og leitað leiða til að draga úr óhagkvæmu brottkasti. Nefndin telur að kanna eigi hvernig hægt sé að hvetja útgerðir til að koma með allan nýtanlegan afla að landi. Þetta er best gert með því að beita hagrænum aðgerðum og með því að umbuna útgerðum fyrir rétta breytni.``

Þarna held ég að í niðurlaginu sé komið aðeins að þeim kjarna að ef á að stýra fiskveiðum með kvótakerfi sem er meirihlutavilji núverandi stjórnarflokka að verði gert, þá er líklegasta aðferðin samhliða kvótakerfinu að tryggja það að menn hafi einhvern hag af því að koma með aflann að landi. Margir hafa einmitt vikið að því fyrr í umræðunni, bæði hv. þm. Jóhann Ársælsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Í þeirri leiðalýsingu sem við í Frjálslynda flokknum skrifuðum í tillögu um grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar, þar sem við veltum upp þeim möguleikum hvernig væri hægt að komast frá núverandi kvótakerfi, segir í 13. lið, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir skyldu til að allur afli, sem á skip kemur, verði fluttur í land. Til að tryggja þetta og búa til hvata fyrir sjómenn og útgerðir til að sinna þessari lagaskyldu, þvert ofan í það sem núgildandi kerfi gerir, er gert ráð fyrir að slíkur lágverðsafli verði seldur á hæsta fáanlegu verði og andvirðinu skipt til helminga milli sérstaks brottkastsjóðs annars vegar en skips og áhafnar hins vegar. Reglunni er ætlað að ná því jafnvægi í þessum skiptum að hvatningin sé næg til að komið sé með fiskinn í land, en ekki svo mikil að slíkur veiðiskapur verði stundaður sem viðvarandi útgerð.``

Ég vildi vekja athygli á þessu. Ég held að menn úr öllum flokkum, ekki bara þeir tveir hv. þm. sem ég nefndi áðan --- og síðan tilvitnunin í tillögu Frjálslynda flokksins sem byggist á að takast á við það að koma á breytingu frá núverandi kerfi. Ég sagði í upphafi máls míns að ég teldi að sóknarkerfið væri mun heppilegra til stýringar fiskveiða og til að taka á þeim vanda heildstætt en núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Eftir sem áður búa menn við þann veruleika að hér er þingmeirihluti á Alþingi sem vill viðhalda að stórum hluta óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi og menn eru því að reyna að koma með skynsamlegar tillögur sem gætu nálgast það að menn m.a. í hinni svokölluðu endurskoðunarnefnd fiskveiðistjórnarkerfisins taki þá mið af því hvað væri hægt að gera ef það er einstefna stjórnarflokkanna að viðhalda núverandi kvótabraskskerfi svo til óbreyttu. Þá þarf auðvitað að taka á þessu vandamáli sem brottkastið er.

Ég hef sagt sem svo að næg verkefni séu fyrir fleiri eftirlitsmenn á Fiskistofu og ég held að svo sé. Og þó að ég hafi ekki beinlínis trú á því að sú tillaga sem hér er sett fram dugi til þess að taka á því vandamáli sem henni er ætlað að taka á, þá held ég að hún sé ekki til annars en að bæta þó það ástand sem nú er að einhverju leyti. Hitt er hins vegar alveg ljóst að þó að við fjölgum eftirlitsmönnum og þeir fari fleiri ferðir með fiskiskipunum, þá munu þeir ekki sjá mikið af brottkasti meðan þeir eru um borð. Það er alveg klárt. (Gripið fram í: Þeir sofa.) Þá kannski dreymir það, hv. þm. En ég held að ljóst sé að þótt þeir væru 40 og færu reglulega um allan flotann sæju þeir ekki mikið af brottkasti meðan þeir væru um borð í skipunum. Það er því illmögulegt að leysa þetta vandamál, brottkastið, með veiðieftirlitsmannafjölda nema því aðeins að það sé skoðun stjórnarliða að það skuli enda með því að einn veiðieftirlitsmaður yrði um borð í hverju einasta skipi og það er stefna sem hefur sums staðar verið tekin upp í veröldinni, að menn hafi eftirlitsmenn með sér við veiðar. (Gripið fram í.) Já, það skapar ný atvinnutækifæri.

Ég held hins vegar að ekki eigi að leysa vandann með því móti heldur eigi að leysa hann þegar við endurskoðum fiskveiðistjórnarkerfið. Og skoðun mín er sú að það eigi að hverfa sem fyrst frá þessu kerfi sem við erum að nota við fiskveiðistýringuna og snúa af þeirri braut.

Ég vil hins vegar í lokin vekja athygli á svari sem hæstv. sjútvrh. gaf við fyrirspurn Bergljótar Halldórsdóttur, varaþm. Frjálslynda flokksins á Vestfjörðum, á síðasta þingi, en þar kemur fram í töflum hvernig leiguverð og verð aflaheimilda og allt þetta er. Þar sést hvenær menn standa frammi fyrir því að velja á milli þess hvort verðgildi aflans nær því að verða fyrir leiguverðinu þegar kemur að landi eða hvort menn velja úr aflanum. Þar að auki er þetta refsiákvæði í 14. gr. laganna um umgengni um nytjastofna sjávar sem verður til þess að menn taka ekki sjensinn á að missa rétt til að stunda atvinnu sína og þess vegna er brottkast mikið.