Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 11:49:28 (784)

2000-10-19 11:49:28# 126. lþ. 14.1 fundur 119. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[11:49]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, sem fjallar um brottkast og reynir að koma í veg fyrir slíkt. Í sumar var mikil umræða um brottkast og menn komu út úr skápnum unnvörpum og sögðu frá syndum sínum, að þeir hefðu stundað brottkast.

Í kosningabaráttunni síðast komu til mín tveir sjómenn, ungir strákar, og settust fyrir fram mig. Annar sagði: Pétur, veistu hvað gerist þegar við förum út á sjó og okkur er sagt að veiða þorsk sem er a.m.k. 5 kíló stykkið? Ég horfði á manninn og sagði: Nei, það veit ég ekki. Þá sagði hann: Við veiðum bara 5 kílóa þorsk. Svo hlógu þeir stórkarlalega, báðir tveir.

Þetta er vandinn. Menn eru sendir út á mið til að ná í ákveðna stærð af þorski og þeir henda bara öllu hinu. Það vita þeir sem farið hafa á sjó að það koma alls konar kvikindi upp í veiðarfærum.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi, svo að ég taki niður í ævisögunni eins og menn hafa gert hérna, að hafa farið einn túr á sjó. Það var með ólíkindum hvílíkur dýragarður kom upp í toginu. Fyrir utan krabba og svoleiðis dót var þar humar, síld, þorskur, koli, ufsi og ég veit ekki hvað. Fyrir öllum þessum tegundum þurfti skipið að eiga kvóta.

Mér finnst að lögin, eins og þau eru núna, taki ekki mið af þessu. Þar er rökleysa. Í 1. mgr. 2. gr. segir að skylt sé að hirða og koma með að landi allan afla, hvern einasta sporð. Síðan stendur í 3. gr.:

,,Óheimilt er að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru. ``

Hvert einasta skip á Íslandi þarf því að hafa kvóta fyrir hverri einustu tegund ef vel á að vera. Það er tæknilega óframkvæmanlegt. Ég hef spurt að því hvað gerist ef skip sem ætlar að veiða þorsk veiðir óvart eina síld. Þá er mér sagt að áhöfnin verði bara að éta hana. Áhöfnin gæti orðið dálítið feit ef hún þyrfti að borða alla þá fiska sem koma að auki upp með veiðarfærunum. Þessi lagaákvæði bæði tvö eru í rökfræðilegri mótsögn og ganga ekki upp. Þau neyða fólk til lögbrota, hreinlega neyða sjómenn til lögbrota.

Eftir að menn komu svo út úr skápnum í sumar og játuðu syndir sínar þá fór ráðuneytið í gang og eins og oft vill verða fundu menn þá leið að auka eftirlit og þyngja refsingar. Menn sömdu texta sem minna dálítið á lögregluríki:

,,Telji Fiskistofa að afli tiltekins skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skal Fiskistofa setja veiðieftirlitsmann um borð í skipið til að fylgjast sérstaklega með veiðum þess.``

Hún skal ef hún telur þetta. Og þegar veiðieftirlitsmaður hefur verið um borð í skipi í sjö daga þá skal Fiskistofa ákveða hvort eftirlitsmaður verði þar áfram, hún á að ákveða þetta. Ef ég væri að gera út þá mundi ég vona að Fiskistofa væri mér ekki óvinveitt og ég hefði aldrei gert neitt á hlut hennar eða starfsmanna hennar persónulega.

Menn hafa ekki velt mikið vöngum yfir mannlegum samskiptum. Við skulum hugsa okkur að veiðieftirlitsmaður séu um borð í skipi. Þeir sem hafa verið á sjó vita hvers slags samfélag er um borð í skipi. Þetta eru örfáir menn, kannski svona 10--20 menn sem lifa og hrærast í litlum matsal í litlu skipi og mjög þröngu plássi. Þeir verða annaðhvort perluvinir eða miklir óvinir. Ef þeir skyldu nú verða perluvinir og veiðieftirlitsmaðurinn kemst allt í einu að því að verið er að moka fyrir borð kola, ætli hann mundi nú ekki bara loka fyrir því augunum og fara niður og fá sér kaffi. Þar fyrir utan fer maðurinn stundum að sofa og þá er náttúrlega fiski mokað fyrir borð. Ég held að þessi aðgerð sé ekki sérstaklega vænleg og ég vil að menn skoði hana mjög nákvæmlega.

Málið sem við þurfum að leysa hér er ekki spurning um pólitík, ekki spurning um einstaklingshyggju, samtryggingu eða eitthvað slíkt. Þetta er spurning um tæknilega útfærslu til að leysa ákveðinn vanda sem er fyrir hendi. Mér finnst að menn eigi að líta á það þannig. Þetta er ekki spurningin um stjórnmálastefnu, hvernig koma á í veg fyrir brottkast. Allir vilja koma í veg fyrir brottkast, hver og einn einasti maður, líka sjómenn og ekki síst þeir.

Ég hef nokkrum sinnum lagt fram tillögu til lausnar á þessum vanda og ég hyggst gera það aftur þannig að hv. sjútvn. hafi fleiri tæknilegar lausnir til að moða úr og menn geti fundið bestu leiðina. Mín lausn felst í að skipstjóri ákveður við löndun hvaða hluti af afla skips skuli teljast til kvótans sem skipið ræður yfir. Allur annar afli telst eign Hafrannsóknastofnunar, Hafró, og útgerðin sjái um að selja afla Hafró og greiða Hafró söluverðmætið að frádregnu gjaldi sem útgerðin fær fyrir að flytja aflann í land. Gjaldið sem ákveðið yrði af ráðuneytinu er það lágt að menn mundu aldrei gera út á þennan afla en er nægilega hátt til að menn hafi hvata til að koma með aflann að landi. Ég sting upp á því að það nemi frá 5--15% af verðmæti aflans, mætti hugsanlega vera krónutala en það yrði að skoða í samráði við þá sem veiða fiskinn, þ.e. sjómenn og skipstjórnarmenn.

Þessi leið kemur í veg fyrir þann rökfræðilega galla sem er á núverandi lögum að menn geta ekki stundað veiðar án þess að brjóta lög. Gjaldið sem lagt er til að borgað verði er nægilega lágt til að menn mundu aldrei gera út á þennan fisk. Gallinn við þessa leið er að hugsanlegt er að menn verði ekki eins varkárir í að forðast þann afla sem hugsanlega gæti komið upp, þ.e. þeir mundu ekki forðast þorskinn eins mikið ættu þeir ekki kvóta fyrir honum. En það er aftur á móti smávægilegur galli að miðað við þær sögur sem maður heyrir af brottkasti, um tugi þúsunda tonna og jafnvel hundruð þúsunda tonna, sem mér finnst reyndar harla ólíklegt. Það væri léttvægt ef allur afli kæmi að landi og nýttist Hafrannsóknastofnun til aukinna rannsókna, til hagsbóta fyrir þjóðina og fyrir sjómenn líka.

Fernt mun hvetja sjómenn til að koma með þennan fisk að landi ef þessi leið yrði farin. Í fyrsta lagi færu þeir að lögum. Það þykir fólki yfirleitt betra en að brjóta lög. Í öðru lagi fá þeir nokkurt verð fyrir aflann, fyrir að koma honum í land og landa honum, og í þriðja lagi finnst flestum leitt að henda verðmætum. Mönnum leiðist að henda rígaþorski af því að þeir eiga ekki kvóta fyrir honum eða glansandi síld. Auk þessa rennur andvirðið til verkefnis sem er til hagsbóta fyrir sjómenn, þ.e. Hafró. Menn gætu líka skoðað fleiri möguleika, t.d. Lífeyrissjóð sjómanna, að hluti af aflanum rynni þangað til þess að bæta bágborna stöðu hans sem hefur leitt til skerðingar á lífeyrisréttindum sjómanna. Þetta held ég að sé að öllu leyti betri leið en sú að fjölga eftirlitsmönnum, þyngja refsingar og að koma á anga af lögregluríki um borð í skipum.

Herra forseti. Ég legg til að hv. sjútvn. taki slíkar hugmyndir til skoðunar. Það mun koma fram frv. á hv. Alþingi um þetta efni mjög bráðlega. Ég legg til að hv. sjútvn. taki allar þessar hugmyndir til skoðunar og finni lausn sem er þannig að allir megi vel við una. Ég vil undirstrika að þetta er ekki spurning um stjórnmálastefnu eða slíkt. Þetta er hreinlega spurningin um að finna góða leið, tæknilega útfærslu á að hindra brottkast.